Að sleppa takinu

18.07.2019 | Andi, Samfélagið

Við heyrum stundum sagt að besta leiðin til að bregðast við ýmsu sem aflaga fer í lífinu sé að „sleppa takinu“ eða í fleirtölu að sleppa tökunum. Persónulega finnst mér best að nota „að sleppa takinu“ því það er eitthvað sem ég tengi við.  Að sleppa takinu hljómar í eyrum margra eins og verið sé að segja að það beri að gera ekki neitt, taka ekki ábyrgð eða taka ekki afstöðu til málanna og hlutast ekki til um að knýja fram þá niðurstöðu sem tryggir árangur. Sumpart er skiljanlegt að fólk fái þá hugmynd að það að sleppa takinu sé aðferð til að geta verið stikkfrí í einhverju máli sem nauðsynlegt er að taka afstöðu til. Annað hvort með eða á móti. En nú skal ég reyna að útskýra hvað ég meina þegar ég segi við þann sem leitar til mín um ráð eða vill fá lánaða dómgreind: „Slepptu takinu!“

Allir sem hafa til að bera heilbrigt brjóstvit (sem á raunar við um flesta) vita að lífið lætur ekki að stjórn. Við höfum ekki vald yfir gangi sólarinnar eða snúningi jarðar. Á sama hátt getum við ekki haft stjórn á því hvað lífið lætur okkur að höndum bera. Við getum haft áhrif á tilveru okkar með orðum, athöfnum og hegðun svona eins og við getum í besta falli leiðbeint börnunum okkar í gegnum það sem við köllum uppeldi. Sumir foreldrar reyna leynt og ljóst að stjórna börnunum sínum og vilja stýra þeim inn á þær brautir sem þeir telja heppilegastar fyrir þeirra vegferð og farsæld. Gott og vel. En á endanum verða þessi börn að fullorðnum einstaklingum og kjósa að fara sínar eigin leiðir.

Það var það sem við gerðum sjálf. Síðan þegar okkar leiðir reyndust ef til vill torsóttari en við töldum í upphafi þá er það rík tilhneiging að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að börnin okkar endurtaki mistökin sem við gerðum. Í okkar eigin vilja og mætti. En þá erum við á stundum furðu fljót að gleyma því hvað það var sem við lærðum af því að gera þessi sömu mistök. Ef við ætlum að stýra börnunum okkar framhjá öllum gildrunum sem við féllum í þegar við vorum ung þá sviptum við þau tækifærinu til að læra af sínum eigin mistökum. Það reynist flestum foreldrum erfitt að sleppa takinu af börnum sínum þegar þau nálgast fullorðinsárin og það reynist mörgum okkar mjög erfitt að sleppa takinu á ýmsu sem hefur rekið á fjörur okkar í lífinu.  

Eitt af því sem við eigum erfitt með að sleppa takinu af er fortíðin okkar. Einkum og sér í lagi harmarnir í lífi okkar. Við höldum stundum mjög fast í harmana okkar og neitum að sleppa af þeim takinu af því hugmyndir okkar um lífið gera á einhvern hátt ráð fyrir því að okkur beri einhvers lags skylda til að þjást til þess að auka á heimild okkar til að öðlast hamingju. Til þess liggja ýmsar ástæður. Síðan notum við þessa harma fortíðarinnar sem afsökun eða réttlætingu fyrir alls konar hegðun og ásköpum okkur einhverja líðan sem á ekkert skylt við hamingju. Við röðum í kringum okkur hlutum sem okkar þykja nauðsynlegir til að geta verið hamingjusöm. Við gerum þá kröfu til annarra að þeir komi fram við okkur á þann hátt sem okkur hugnast og viljum helst að einhverjir aðrir sjái til þess að ytri aðstæður okkar séu til þess fallnar að gera okkur hamingjusöm.

Við reynum að stjórna framtíðinni, stjórna núinu og eigum stöðugt í útistöðum við það sem er. Við gerum jafnvel þær kröfur til makans okkar um að hann eða hún eigi að gera okkur hamingjusöm. Allt þetta bindur okkur á klafa. Við sköpum bindingu við alla skapaða hluti af því við erum með þær hugmyndir að allt þetta ytra; svo sem menntun, frami, eignir og ríkidæmi geri okkur hamingjusöm.  Ef við værum svipt öllu þessu þá virðumst við sannfærð um að ekkert annað en endalaus óhamingja bíði okkar handan alls þessa veraldlega sem við höfum bundið hamingju okkar við. Samt lítum við upp til andlegra meistara sem hafa söðlað um og gefið upp á bátinn allt þetta dót. Sbr. Búdda sem var erfðaprins sem varð fyrir andlegri vakningu, afsalaði sér konungdómi og gaf allar eigur sínar til að hefja andlegt líf.

Milljónir manna og kvenna hafa tekið hann sér til fyrirmyndar, fylgt hans fordæmi og tileinkað sér kenningar hans. Dæmin eru út um allt, en samt erum við enn haldin þeirri þráhyggju að með því að næra egóið okkar á þessa heims gæðum séum við að gulltryggja lífshamingju okkar. „Hamingjan er falin í helgiskríni einfaldleikans,“ segir á einum stað.  Í svipinn man ég ekki eftir neinu spakmæli um hamingjuna þar sem peningar, völd og dót koma við sögu. Aftur á móti er fjöldinn allur til af spakmælum um allt það góða sem við öðlumst þegar friður og sátt ríkir hið innra. Innri friður og sátt kosta ekki neitt. Það besta í lífinu er ókeypis en við erum samt reiðubúin að greiða dýru verði fyrir fánýtt dót og allt það sem kemur okkur á myrkustu staði tilverunnar.

Í vestrænu samfélagi hefur svo margt snúist um samkeppni þegar við ættum miklu fremur að hafa samkennd að leiðarljósi. Kærleikur og samkennd eru manninum eðlislæg og það krefst ekki nokkurs af veraldlegum gæðum að breiða út kærleika og sýna samkennd. Það kostar ekkert en gefur tífalt til baka. Samkeppni ýtir undir þessi stríð. Stríð egósins. Þessi innri og ytri stríð sem við erum stöðugt að heyja. Jafnvel orðræða nútímans er lituð af orðum eins og: lífsbarátta, að takast á við, að berjast fyrir, að keppa að, að spyrna við fótum, að ráðast á, að sækja fram, að sigra, að hafa einhvern undir, að knésetja, hrinda af stað, bíta í skjaldarendur, og o.s.frv. Ef við bara mundum taka þennan kreppta hnefa og rétta úr fingrunum þá værum við í líkamlegum skilningi að sleppa takinu. Það segir sig sjálft að það er miklu auðveldara að slaka á fingrunum en að kreppa hnefann. Á sama hátt er miklu auðveldara að sleppa takinu af því sem gagnast okkur ekki í stað þess að halda í það.  

Heimspekingurinn og Zenpresturinn Alan Watts orðaði það svona: „Hvað er að sleppa takinu? Það er í rauninni ekki til neitt sem heitir að sleppa takinu  vegna þess að upphaflega var aldrei neitt að halda í.“ Ég segi hins vegar fyrir mitt leyti, þá hefur það reynst mér best að sleppa takinu og leyfa Guði. Einmitt, já. Guði. Þá er ég að tala um Guð eins og hver og einn skilur hann. Guð er bara þriggja stafa orð um fyrirbæri sem allir geta tengt við ef þeir kæra sig um.  Guð getur verið hvað sem er. Orka, vitund, tilfinning, innsæi og síðast en ekki síst trú. Ekki trúarbrögð. Trúarbrögð eru fyrir þá sem óttast að fara til helvítis en trú er fyrir þá sem hafa verið þar. Þess vegna er trú og trúarvitund gagnlegt fyrirbæri og færir okkur nær því að skynja Guð sem áþreifanlegt afl í alheimi.

Að sleppa takinu og leyfa Guði er samt ekki alltaf auðvelt. En samt er miklu erfiðara að halda í. Þegar ég fór í gegnum erfiðan skilnað fyrir áratug þá missti ég sambandið við Guð. Ég náði heldur ekki tengingu við sjálfan mig fyrr en ég sleppti takinu af fyrrverandi konunni minni og því svokallaða fjöldkyldulífi sem ég átti með henni. Ég komst t.d. ekki yfir þá hugmynd að það væri niðurlægjandi fyrir mig þegar ég missti heimilið mitt í kjölfar hrunsins fyrr en ég náði að sleppa takinu. Þetta var bara hús og þetta var bara dót. Ég hafði ennþá sjálfan mig, var á lífi við fulla heilsu og gat loks sleppt takinu af því að það væri einhvers konar niðurlæging að búa í bílskúr suður í Hafnarfirði þegar ég hafði átt hús, jeppa, sólpall, heitan pott í garðinum og fullt af alls konar dóti sem samkvæmt uppskriftinni hefði átt að gera mig hamingjusaman.

Það var ekki fyrr en ég sleppti takinu af þessum hugmyndum um sjálfan mig og lífið að ég upplifði frelsi og hamingju. Ég átti ekki neitt en ég skuldaði heldur ekki neitt. Ég skulda ekki neinum banka. Ég hef allt. Kannski ekki allt sem mig langar í og vil en allt sem ég þarf. Líðan mín stjórnast ekki lengur af þeim hörmum sem hafa dunið yfir mig á lífsleiðinni vegna þess að mér tókst að sleppa takinu af hörmunum mínum. Erfiðast reynist mörgum að sleppa takinu þegar ástin er annars vegar. Já. Ég tengi við það. En þó er það eina leiðin til að endurheimta sjálfan sig.  Að sleppa takinu af þeim sem maður elskar þegar sá hinn sami hefur sleppt takinu af þér. Alveg sama hvað það kann að vera sárt. Þá sleppum við bara takinu af þeim sársauka líka. Förum bara inn í sársaukann og leyfum honum að flæða í gegnum okkur. Sleppum takinu af mótspyrnunni. Hættum að berjast. Hættum að vera í stríði. Hættum að eiga í eilífum útistöðum við það sem er. Þá spyr eflaust einhver: „Hvernig í ósköpunum á ég að fara að því að sleppa takinu?

Svarið er einfaldlega: Með því að sleppa takinu.

Ef við gerum það ekki, þá erum við að halda í og jafnvel að halda í það sem var aldrei til staðar. Tökum dæmi um ástina. Ef maki þinn snýr við þér baki og gengur út um dyrnar þá er það ekki vegna þess að hann elskar þig.  Ef makinn vildi vera með þér þá færi hann ekki. Þess vegna þýðir ekki að góna á dyrnar sem hann gekk út um í þeirri von að hann/hún snúi við.  Við leyfum viðkomandi að fara í kærleika. Við sleppum takinu og þá fyrst opnast aðrar dyr þegar hinar lokast. Það er einfaldlega alltaf þannig. Það er óhætt að treysta því. Ef ég sleppi takinu og treysti innsæinu mínu þá fer allt vel. Það fer eins og því er ætlað að fara. Að sleppa takinu þýðir þess vegna einfaldlega að treysta.

Að treysta alheiminum og binda okkur ekki við það sem gagnast okkur ekki. Kannski auðvelt að segja en með æfingunni komumst við þangað. Við getum ekki stjórnað neinu í þessu lífi nema í mesta lagi því að stýra sjálfum okkur í gegnum öldurótið og treysta því að við munum komast á lygnari sjó. Við getum stýrt því hvernig við bregðumst við því sem gerist og ein aðferðin er sú að sleppa takinu og leyfa Guði. Lifa og leyfa öðrum að lifa. Einfaldleikinn, litlu hlutirnir, auðmýktin, kærleikurinn og samkenndin eru grunnefnin í uppskriftina. Svo má auðvitað bæta hana með hugleiðslu, bæn, hreyfingu, hollu mataræði, ræktarsemi, dassi af skemmtun og dægradvöl, menningu, yndislestri og öllu því jákvæða sem fyrirfinnst í þessari tilvist.

En umfram allt að sleppa takinu af því sem gagnast okkur ekki, fela sig Guði á vald og þá kemur allt hitt af sjálfu sér.

Namaste

Valgeir Skagfjörð


Photo by Max van den Oetelaar, Nieuwezijds Voorburgwal, Amsterdam, Netherlands

Um ofbeldi og áfallabyrði

Um ofbeldi og áfallabyrði

Í íslenskum fréttum hefur á undanförnum mánuðum mikið verið rætt um aukningu á heimilisofbeldi hér á landi. Sérfræðingar hafa stigið fram og lýst yfir miklum áhyggjum af þróuninni. Það er ljóst að nú er ennþá brýnni þörf á því að bregðast við með auknum forvörnum og...

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Leit mín að betri líðan og bættri heilsu hefur leitt mig inn á ótrúlegustu slóðir í gegnum tíðina og stundum alla leið út fyrir landsteinana þar sem aðgengi að ýmsum náttúrulegum efnum á Íslandi er frekar takmarkað. Þannig hef ég reynt allar mögulegar leiðir og...

Sjálfsímynd ungs manns

Sjálfsímynd ungs manns

Pistill vikunnar kemur frá Ólafi Andra Gunnarssyni, 24 ára háskólanema sem býr í Borgarfirði. Hann hefur varið mestum tíma sínum í nám á undanförnum árum en eftir að hann lauk námi á náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni hóf hann meistaranám í lögfræði við...

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Sölvi Tryggvason gaf nýverið út bókina “Á eigin Skinni” sem er afrakstur áratugar vegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi...

Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing

Hvað er sjálfsvirðing? Í hverju felst hún? Á hverju byggist hún? Hvaða máli skiptir að hafa sjálfsvirðingu? Er sjálfsvirðing það sama og sjálfsmynd? Um hvað erum við að tala þegar við notum orðið sjálfsvirðing? Jú, ætli við vitum ekki flest hvað sjálfsvirðing er, eða...

Halló gerandi!

Halló gerandi!

 Þú veist kannski ekki af því að þú ert að beita ofbeldi. Varst jafnvel sjálfur beittur ofbeldi. Kannski ertu orðinn svo samdauna því að níðast á öðrum að þú þekkir einfaldlega ekkert annað. Kannski varðstu fyrir heilaskaða eða þjáist af persónuleikatruflun og getur...

Tinder fyrir lofaða

Tinder fyrir lofaða

Pistlahöfundur vikunnar er engin önnur en Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi. Fyrir 20 árum byrjaði Ragga að fjalla um kynlíf í fjölmiðlum og fékk mikla athygli fyrir  sína fræðandi, skemmtilegu og hispurslausu pistla. Þessi...

Að tapa ekki gleðinni

Að tapa ekki gleðinni

Taktu lífinu ekki of alvarlega, finndu húmorinn í sjálfum þér, aðstæðum og öðru fólki. Reyndu að fjölga samverustundum með vinum og fjölskyldu. Mundu að tíminn með þeim er takmarkaður, dýrmætur og knappur í öllu stóra samhenginu. Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og...

Mens sana in corpore sano

Mens sana in corpore sano

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið...