Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

22.06.2019 | Andi, Fólk, Samfélagið

Sölvi Tryggvason gaf nýverið út bókina “Á eigin Skinni” sem er afrakstur áratugar vegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi fólki um allan heim, auk þess að gera endalaust af tilraunum á sjálfum sér þegar kemur að kælingu, föstum, næringu, hreyfingu, bætiefnum og fleiru og fleiru. Sölvi hefur á undanförnum 15 árum unnið við fjölmiðla og gert fjölda þáttasería, auk heimildarmyndarinnar “Jökullinn Logar.”

Þú hefur mikla reynslu af heilsumálum og hjálpað fjölda fólks við almenna heilsueflingu. Hvenær byrjaði það ferðalag og hvernig hefur það þróast?

Þetta ferðalag byrjaði í raun fyrir talsvert löngu síðan, þó að þá hafi markmiðið í sjálfu sér ekki verið að fara að vinna með fólki. En ég áttaði mig á því fyrir sirka 2 árum að ég var orðinn það mikill sérfræðingur eftir öll þessi ár af prófunum, námi, lestri og fleiru að það kom eiginlega ekkert annað til greina en að byrja að miðla því. Ferðalagið er alltaf í þróun og mun sjálfsagt halda áfram að þróast um ókomna tíð.

Bókin þín „Á eigin skinni“ hefur vakið mikla athygli og þú hefur haldið marga fyrirlestra í tengslum við hana. Eigum við von á fleiri bókum frá þér um heilsutengd málefni? 

Ég var á 12 daga göngu milli Portúgals og Spánar árið 2017 þegar ég fékk þessa hugmynd og þá var ekki aftur snúið. Viðbrögðin við bókinni fóru svo í raun fram úr öllum væntingum og ég er mjög þakklátur fyrir það. Fyrirlestrahrinan byrjaði í raun strax eftir að bókin kom út og á næstu þremur mánuðum hélt ég um 80 fyrirlestra og námskeið, þannig að þetta er búið að vera mikið ferðalag og vonandi hef ég náð að gera talsvert gagn.

Í dag er mikið fjallað um andlega heilsu og hún er ekki lengur jafn mikið tabú og áður fyrr sem betur fer. Hvaða fyrstu skref ætti manneskja að þínu mati að taka sem er komin í andlegt þrot? 

Við erum auðvitað jafn ólík og við erum mörg, þannig að það er ekkert eitt ráð sem virkar fyrir alla. En í grunninn held ég að stærsta ráðið þegar fólk er komið á þennan stað sé að byrja nógu smátt og raunhæft, en standa við hlutina. Litlar breytingar og litlir vanar sem fólk nær að festa inn enda á að verða stórar breytingar. Þannig væri til að mynda fyrsta vikan kannski einn þakklætislisti, 5 mínútna hugleiðsla og stuttur göngutúr góð byrjun. Svo er bætt ofan á það koll af kolli. Stærsta atriðið þegar fólk er komið á mjög erfiðan stað er að ná aðgerðunum inn, alveg sama hve smáar þær eru. Byrja að láta hjólin snúast, koma litlum vönum inn og byggja svo hægt og rólega ofan á það.

Hvað gerðist þegar fór að halla undan fæti með þína eigin andlegu heilsu og hvernig varðstu var við að þú varst farinn að veikjast andlega? 

Ég fer mjög ítarlega yfir það í bókinni minni, en í stuttu máli kom það fram mjög líkamlega hjá mér. Sjóntruflanir, stanslaus svimi og fleira sem varð til þess að ég var farinn að eiga mjög erfitt með að sinna daglegum störfum. Í raun var allt kerfið bara að byrja að gefa sig og þá er tómt mál að tala um að gera einhvern greinarmun á andlegri og líkamlegri heilsu. Þetta tvennt spilar svo mikið saman.

Áfallstreita og kulnun er mjög áberandi í okkar þjóðfélagi í dag. Ég veit þú hefur kortlagt aðferðir við að minnka streitu og forðast kulnun sjálfur. Geturðu deilt með lesendum okkar mikilvægustu atriðunum við að hlúa að okkur sjálfum og fyrirbyggja streituástand og kulnun?

Þetta eru talsvert flókin fyrirbæri sem verða til yfir langan tíma og þess vegna getur tekið tíma að vinna sig út úr mikilli streitu. En í mínum huga stafa þessir hluti að mjög miklu leyti af því að fólk er komið með ofvirkt: ,,fight or flight” viðbragð í tíma og ótíma, þannig að sympatíska taugakerfið hefur verið á algjörum yfirsnúningi allt of lengi. Leiðin út er í mínum huga þess vegna fyrst og fremst að komast betur inn í hitt kerfið – ,,parasympatíska” hluta taugakerfisins. Til þess eru margar leiðir, öndunaræfingar, hugleiðsla, rétt hreyfing, góð félagsleg tengsl og margt, margt fleira.

Frasinn hlustaðu á líkamann er mjög oft notaður en hvernig hlustum við á andann? 

Tvær bestu leiðirnar í mínum huga eru að verja nægum tíma úti í náttúru og hugleiða.

Fullkomið jafnvægi og vellíðan í eigin kroppi er eitthvað sem við flest þráum en margir eru þó fastir í fíknihegðun eða öðru stjórnleysi sem hindrar þetta markmið. Hverjar eru helstu hindranirnar að þínu mati að fólk nái þessu gullna jafnvægi? 

Stærstu hindranirnar eru líklega annars vegar að fólk nær ekki að komast yfir hjallinn þar sem þú ferð að finna jákvæðu áhrifin af því að gera góða hluti, þannig að þú hættir áður en heilinn er farinn að ná almennilegri tengingu við vellíðan og síðan hins vegar að fólk er mjög oft með óraunhæf markmið, sem valda því að til verður vítahringur. Um leið og fólk nær almennilegri tengingu við vellíðan eftir að gera breytingar á lífsstíl verður til ,,momentum” sem ýtir fólki síðan í að gera fleiri góða hluti.

Ofbeldisumræðan hefur verið mjög áberandi á síðastliðnum árum og það er ljóst að mjög margir þjást af áfallastreituröskun vegna ofbeldis. Hefurðu einhverja sérstaka skoðun á því hvaða leiðir þessi hópur fólks ætti að fara við að ná bata? 

Annars vegar leita til sérfræðinga og vinna úr áföllum þannig, en síðan hins vegar að gera allt sem hægt er að gera til að vera í sem bestu líkamlegu jafnvægi, þannig að heilastarfsemin sé góð og þar af leiðandi minni líkur á kvíða, depurð og fleiru í þeim dúr. Það að næra sig rétt, hreyfa sig, ná dýpri öndun og fleira í þeim dúr hefur bein áhrif á það hvernig heilinn upplifir tilveruna.

Hefurðu verið að taka að þér einstaklinga í markþjálfun með áherslu á andlega styrkingu? 

Ég er að vinna í ákveðnu módeli sem ég er að fara að byrja með þar sem markmiðið er að hjálpa fólki með heilsu á heildstæðan hátt.

Hvernig myndi hinn fullkomni dagur byrja og enda hjá Sölva?

Mjög góður dagur hjá mér myndi byrja á því að ná góðri morgunrútínu, þar sem ég tek létta hreyfingu, vinn aðeins með öndun og hugleiðslu, geri þakklætislista og tek kalda sturtu. Þetta tekur innan við 30 mínútur og setur taktinn fyrir góðan dag. Hinn endinn á deginum er mjög góður ef ég er í góðum félagsskap með skemmtilegu fólki fram að háttatíma. Dagarnir mínir eru svo gífurlega ólíkir að það er erfitt að tala um dæmigerðan dag, nema að ég reyni að halda mig við þessa morgunrútínu og ef ég er í vinnu næ ég besta glugganum þar á morgnana og tek svo hreyfingu í hádeginu.

Hvað er næsta skref hjá Sölva í heilsumálunum? 

Að halda áfram að fara inn í fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög og vonandi gera sem mest gagn þar. Halda áfram að halda námskeið fyrirlestra og fleira og svo fara að vinna með einstaklingum á þessu sviði líka.

Við hjá Hámarksheilsu hlökkum til að fylgjast með störfum Sölva áfram og mælum eindregið með því að fólk lesi bókina hans “Á eigin skinni” sem er mjög hagnýt til heilsueflingar en einnig mjög upplýsandi og áhugaverð.

Kristjana Björg Sveinsdóttir


Ljósmyndir:  úr einkasafni Sölva. Útfærsla aðalmyndar: Hámarksheilsa.

Instagram

Um ofbeldi og áfallabyrði

Um ofbeldi og áfallabyrði

Í íslenskum fréttum hefur á undanförnum mánuðum mikið verið rætt um aukningu á heimilisofbeldi hér á landi. Sérfræðingar hafa stigið fram og lýst yfir miklum áhyggjum af þróuninni. Það er ljóst að nú er ennþá brýnni þörf á því að bregðast við með auknum forvörnum og...

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Leit mín að betri líðan og bættri heilsu hefur leitt mig inn á ótrúlegustu slóðir í gegnum tíðina og stundum alla leið út fyrir landsteinana þar sem aðgengi að ýmsum náttúrulegum efnum á Íslandi er frekar takmarkað. Þannig hef ég reynt allar mögulegar leiðir og...

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Við heyrum stundum sagt að besta leiðin til að bregðast við ýmsu sem aflaga fer í lífinu sé að „sleppa takinu“ eða í fleirtölu að sleppa tökunum. Persónulega finnst mér best að nota „að sleppa takinu“ því það er eitthvað sem ég tengi við.  Að sleppa takinu hljómar í...

Sjálfsímynd ungs manns

Sjálfsímynd ungs manns

Pistill vikunnar kemur frá Ólafi Andra Gunnarssyni, 24 ára háskólanema sem býr í Borgarfirði. Hann hefur varið mestum tíma sínum í nám á undanförnum árum en eftir að hann lauk námi á náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni hóf hann meistaranám í lögfræði við...

Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing

Hvað er sjálfsvirðing? Í hverju felst hún? Á hverju byggist hún? Hvaða máli skiptir að hafa sjálfsvirðingu? Er sjálfsvirðing það sama og sjálfsmynd? Um hvað erum við að tala þegar við notum orðið sjálfsvirðing? Jú, ætli við vitum ekki flest hvað sjálfsvirðing er, eða...

Halló gerandi!

Halló gerandi!

 Þú veist kannski ekki af því að þú ert að beita ofbeldi. Varst jafnvel sjálfur beittur ofbeldi. Kannski ertu orðinn svo samdauna því að níðast á öðrum að þú þekkir einfaldlega ekkert annað. Kannski varðstu fyrir heilaskaða eða þjáist af persónuleikatruflun og getur...

Tinder fyrir lofaða

Tinder fyrir lofaða

Pistlahöfundur vikunnar er engin önnur en Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi. Fyrir 20 árum byrjaði Ragga að fjalla um kynlíf í fjölmiðlum og fékk mikla athygli fyrir  sína fræðandi, skemmtilegu og hispurslausu pistla. Þessi...

Að tapa ekki gleðinni

Að tapa ekki gleðinni

Taktu lífinu ekki of alvarlega, finndu húmorinn í sjálfum þér, aðstæðum og öðru fólki. Reyndu að fjölga samverustundum með vinum og fjölskyldu. Mundu að tíminn með þeim er takmarkaður, dýrmætur og knappur í öllu stóra samhenginu. Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og...

Mens sana in corpore sano

Mens sana in corpore sano

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið...