Frelsi í eigin líkama eru einkunnarorðin hjá Primal Iceland

13.04.2019 | Líkami

Blaðamaður Hámarksheilsu fór á dögunum og kynnti sér starfssemi Primal Iceland í Faxafeninu og tók þar viðtal við einn af þjálfurunum, Helga Frey Rúnarsson. Þeir eru þrír saman félagarnir sem reka Primal Iceland og búa þeir allir yfir mikilli reynslu. Auk Helga Freys eru það þeir Einar Carl Axelsson og Þór Guðnason. Félagarnir vinna með mismunandi áherslur í þjálfuninni þó þeir noti sömu hugmyndafræði en hún snýst fyrst og fremst um frelsi í eigin líkama. Kapparnir innréttuðu húsnæðið sjálfir úr endurnýttu efni og hefur það mjög sterkan og sérstakan karakter.

Hvernig þjálfun bjóðið þið upp á hjá Primal Iceland?

Við bjóðum upp á þrennskonar þjálfun í Primal: Movement, Wim Hof og Handstöðunámskeið. Movement tímarnir okkar byggja á blöndu af æfingum frá fimleikum, dansi, Capoeira (sem er brasilísk bardagadanslist) og öllu sem hrífur okkur. Við reynum eftir mesta megni að nota einungis eigin líkama til æfinga og því er aðstaðan tiltölulega einföld. Við erum með dýnur á gólfinu, fimleikahringi í lofti og ekki mikið meira. Wim Hof námskeiðin ganga út á öndunaræfingar í sambland við köld böð. Á handstöðunámskeiðunum kennum við svo ungum sem öldnum listina að standa á höndum.

Helgi Freyr og Kristjana frá Hámarksheilsu settust á gólfið til að ræða málin.

Hvaðan kemur þessi aðferðarfræði sem þið styðjist við hjá Primal Iceland?

Upphaflega hugmyndin að Movement tímunum okkar byrjaði líklegast hjá Ido Portal sem var kom þeirri hugmyndafræði á kortið. Bruce Lee sagði ,,Drekktu í þig það sem er gagnlegt, fleygðu því gagnlausa burt og bættu þínu eigin við’’. Ido tók þessa hugmynd og bjó til sitt eigið kerfi úr henni sem einfaldlega kallast ,,Movement’’. Við heilluðumst af þessari hugmynd en fórum aðeins aðra leið en hann. Hugmyndin er þá að þú verður aldrei jafngóður og sá besti í hverju og einu en þú verður samt sem áður það góður í öllu að þú getur leikið þér eins og þú vilt. Einar Carl áttaði sig fljótt á því eftir þjálfun hjá Ido að það er enginn að kenna neitt svipað á Íslandi og þá kom hugmyndin að því að taka upp svona námskeið hérna heima. Við strákarnir höfðum sömu hugmynd og Ido að leiðarljósi og leyfðum okkur þar að auki frelsið til þess að velja hvað hentaði okkur hverjum og einum best. Þannig erum við kennararnir hérna allir með mismunandi fókus. Mér finnst sem dæmi rosalega gaman að standa á höndum og þá geri ég það. Ido er með sitt dogma, ,,Movement Culture’’, sinn eigin pakkadíl með ákveðnum takmörkunum, sem við hjá Primal vorum ekki alveg sammála, og því leituðum við uppi okkar eigin stefnu. Eins og stendur á töflunni hérna niðri þá snýst Primal fyrst og fremst um frelsi í eigin líkama. Wim Hof aðferðin kemur svo frá Hollendingnum Wim Hof og nýtum við okkur hans aðferðafræði til kennslu á öndunaræfingum ásamt köldum böðum.

Helgi Freyr sýnir blaðamanni Hámarksheilsu hvernig þetta er gert.

Hvernig mynduð þið þá lýsa ykkar tækni hjá Primal?

Við bjóðum upp á Movement, Wim Hof kulda- og öndunarþjálfun og handstöðunámskeið. Sem dæmi, þá þekkja flestir handstöðu úr fimleikum en ég fann að sú tækni hentaði mér ekki, svo ég leitaði annað og fann mína handstöðuaðferð hjá sirkusfólki. Hugmyndin er að taka það sem virkar og er best úr hverri íþrótt eða iðkun fyrir sig og nota það í æfingunum. Við þróum okkar eigin aðferðir og leitum eftir því sem hverjum og einum hentar best í hreyfingum. Það sem virkaði vel fyrir tveimur árum virkar ekkert endilega eins vel fyrir mig í dag og þá hikum við ekki við að skipta henni út, það fer allt eftir núverandi getu iðkandans. Aðferðafræðin er því á stanslausri hreyfingu. Svo er líka munur á einkatímum og hóptímum. Í einkatímunum erum við að einbeita okkur að einstaklingi sem gæti verið með axlarvandamál eða eitthvað annað sem þarfnast sérmeðferðar. Í hóptímunum verður hins vegar að leggja áherslu á að hafa líka gaman!

Hver er kennslufræðin hjá ykkur á bak við þjálfunina?

Það læra ekki allir það sama og heldur ekki alveg eins. Við kennum fólki vissan grunn en mismunandi áhugasvið koma svo fljótt í ljós. Merki um góðan kennara er að geta staðlað allar æfingar fyrir hvern sem er. Ég get farið með landsliðsmann í fimleikum eða kyrrsetufólk í gegnum nákvæmlega sömu þjálfun því við byrjum á þeim stað sem passar hverjum og einum best. Við bjóðum auk þess upp á mjög breitt og fjölbreytilegt svið og nýtum alla þá þekkingu og það hugmyndaflug sem við búum yfir til að útfæra æfingarnar. Ég kenndi til dæmis Íslenska Dansflokknum í rúmlega ár og litaðist kennslan mín hjá Primal töluvert af því á meðan því stóð.

Í einkatímunum gefst besta tækifærið til þess að vinna með einstaklinginn. Við horfum á hvernig fólk hreyfir sig, lesum í hvar það er stíft og stirt og hvar ójafnvægi er í líkamanum. Þetta ójafnvægi getur svo valdið allskyns kvillum í fólki. Eins klisjukennt og það er, þá notum við „Use it or loose it“ mikið, því ef þú notar ekki styrkleikann þinn eða liðleikann þá taparðu honum og þess vegna sitjum við núna á gólfinu! segir Helgi Freyr hlæjandi.

Hver er bakgrunnur ykkar þjálfaranna?

Ég æfði alltaf fótbolta en varð að hætta vegna meiðsla og hreyfði mig ekkert í tíu ár eftir það. Ég var í doktorsnámi í eðlisfræði í Portúgal á þessum tíma og fór að átta mig á því að líkaminn var kominn í algjört rugl. Ég gat ekkert æft neitt út af verkjum, var orðinn allt of þungur og stirður. Í leit að lausnum fór ég að leita á netinu og fann teygjuprógram sem ég gat gert því ég réð í raun við enga aðra hreyfingu. Ég iðkaði þetta prógram í þrjá mánuði á hverjum degi og leið strax miklu betur í líkamanum. Eftir að ég fór að finna hvað teygjurnar og hreyfingin voru að gera fyrir mig varð ég mjög hungraður í að læra ennþá meira um hvernig líkaminn fer að því að lækna sig sjálfur. Ég fór að leita til kennara sem ég var búinn að lesa mér til um á netinu. Þannig hef ég sótt yfir 20 vinnustofur út um allan heim til að sækja meiri þekkingu. Ég prófaði Boot Camp, Yoga, Crossfit, fullorðinsfimleika og bara allt sem mér datt í hug en fannst bara svona 30-70% af hverri iðkun skemmtileg. Það var svo fyrir nokkrum árum sem ég heyrði af Ido Portal og kynntist þá Einari í gegnum Movement Improvement tímana hans.

Einar Carl Axelsson einn þremenninganna er með bakgrunn sem afreksmaður í íþróttum. Hans sérgrein hjá Primal er styrktarþjálfun auk greiningar  og þjálfun við stoðkerfisvandamálum.

Einar Carl Axelsson hafði í raun farið í gegnum mjög svipaða vegferð. Hann var í landsliðinu í Taekwondo og afreksíþróttamaður mjög lengi. Fyrir nokkrum árum lenti hann í alvarlegu snjóbrettaslysi í Austurríki þar sem hann fimmbraut á sér bakið. Eftir slysið fékk hann þau svör að hann myndi aldrei geta gert hluti aftur í íþróttum sem hann hafði verið að gera. Einar er hins vegar svo þrjóskur að hann hugsaði  „ef þið getið ekki hjálpað mér, þá fer ég bara eitthvað annað.“ Hann fór á netið og leitaði að lausnum þar. Í stuttu máli komst hann til baka og er í raun betri en hann nokkurn tímann var. Hann var í nuddnámi á þessum tíma og byrjaði að vinna með teygjur líka á fólki. Það kom í ljós að það virkaði rosalega vel og verkirnir fóru að hverfa hjá fólki. Upp frá því fór hann að vinna sem meðferðaraðili með teygjur og nota þær til þess að hjálpa líkamanum að rétta sig af. Einar byrjaði einnig að lesa sér meira til um ójafnvægi í líkamanum og upp úr því varð einmitt þessi aðferðarfræði í einkatímunum til hjá okkur þar sem við notum teygjur og hreyfigreiningar til þess að hjálpa fólki. Við Einar kynntumst um það leyti fyrir fjórum árum en þá fóru tímarnir að þróast yfir í það sem þeir eru í dag og mætti lýsa sem alhliða verkjaútrýmingu og styrkingu líkamans. Sumt fólk þarf teygjur til þess að losna við verkina en aðrir fá mikla lausn í öndunaræfingunum og kuldaþjálfuninni. Einar er meira í styrktarþjálfun og stoðkerfisvandamálum á meðan Þór, sá þriðji hjá okkur í Primal, sér um Wim Hof kuldaþjálfunina ásamt öndunartækninni.

Líf og fjör er í salnum og gaman er að sjá fólk sem náð hefur góðum árangri í þjálfuninni stunda æfingar.

Þór Guðnason var upphaflega ekki í neinum sérstökum íþróttum en stundaði lyftingar. Hann gerðist einkaþjálfari og fór að kynna sér Yoga. Þar fann hann greinilega hvað teygjurnar hjálpuðu honum að slaka á og fór fljótt að upplifa miklu betri líðan í líkamanum. Fyrir 3-4 árum uppgötvaði hann svo Wim Hof. Það er svo ótrúlega skemmtilegt að heyra Þór lýsa því þegar hann var í kennaranámi í Yoga í Indlandi. Þar sat hann á mottu á einhverri strönd í Indlandi og hugleiddi endalaust en róaðist samt aldrei. Hann er greindur með ADHD og var í raun og veru að berjast við hugleiðsluna allan tímann. Um leið og Þór fór að stunda Wim Hof, ísböð ásamt öndunaræfingum, náði hann loksins að róa hugann.  Aðferðafræðin á bak við kuldaþjálfunina byggir í raun á þremur grunnstoðum: köldum böðum, öndun og síðan staðfestunni að gera þetta á hverjum degi. Kuldaþjálfunin byrjar sem dæmi oft bara í sturtunni heima. Það er misjafnt hvað fólk fær út úr kuldaþjálfuninni. Hún hjálpar sumum að losna við verki en hún er líka mjög góð fyrir almenna endurheimt eftir æfingar. Það hefur einnig komið í ljós að kuldaþjálfunin hefur mjög jákvæð áhrif á ónæmiskerfið. Við þjálfum ónæmiskerfið kannski best með því að ögra því. Að sama skapi er Wim Hof líka frábær þjálfun í að stíga út úr þægindarammanum. Um leið og þú ferð út fyrir þægindarammann þinn gerist eitthvað magnað. Það þarf að fara varlega af stað í kuldaþjálfun, fá leiðsögn og ef það eru undirliggjandi sjúkdómar borgar sig að tala við lækni fyrst. Að stunda köld böð hefur gríðarleg áhrif á líkamann, þau auka adrenalín- og kortisólframleiðslu og búa til adrenalínviðbrögð í líkamanum. Kuldinn hreinsar hugann en með því að fara í kalda vatnið neyðumst við eiginlega til þess að róa hugann, í raun bara neydd í hugleiðsluástand. Ef ég hendi þér út í íspottinn þá hugsar þú ekki neitt nema það að lifa af svo það kikkar inn eitthvað svona „Primal!“ segir Helgi hlæjandi.

Kom nafnið þaðan?

Nafnapælingarnar voru búnar að vera töluverðar áður en við duttum niður á rétta nafnið. Hreyfinámskeiðin hétu upphaflega Movement Improvement en svo kom Wim Hof fræðin inn og þá fórum við meira að velta nafninu fyrir okkur. Við Einar, sem erum alltaf berfættir, vorum nýbúnir að kaupa okkur svona fótalaga skó sem heita „Primal“ og þá kom akkúrat rétta nafnið til okkar. Við tengjum „Primal“ við það að fara aftur í frummennskuna með hreyfingu og öndun. Það fylgir því ákveðið frelsi að fara aftur til fortíðar, hverfa frá nútímaþægindum, fara í köld boð, veltast um og leika sér í náttúrunni. Partur af þessu er að þjálfa sig í því að líða þægilega í óþægilegum aðstæðum. Þjálfa sig upp í nýjum hlutum, sem getur verið mjög óþægilegt, en með því að læra nýja hluti reglulega verðurðu stöðugt betri í að læra nýja hluti.

Eruð þið að vinna eitthvað með fólki sem er með einhver frávik?

Já, við vísum engum frá og höfum getað hjálpað fólki af öllum toga. Það eru t.d. nokkrir krabbameinssjúklingar í öndunarþjálfuninni og í raun eru allir með einhver frávik. Oftast er best að byrja á einkatíma og þá tökum við stöðuna og vinnum svo með einstaklinginn með því að leggja áherslu á styrkleikana og fækka takmörkununum.

Hvernig hafa viðtökurnar verið hjá ykkur

Einar var með Movement Improvement tímana upphaflega í Mörkinni, bara 50 fermetrum og þegar allt fór að stækka þurfti að finna nýtt húsnæði. Eftir flakk 2016 og fyrri part 2017, vorum við Þór ákveðnir í að koma inn í þetta og þá tókum við þetta húsnæði að okkur hérna í Faxafeni.

Fólkið sem kemur til okkar er í raun alveg þverskurður af þjóðfélaginu. Frá því í ágúst 2017, hafa komið u.þ.b. 700 manns á handstöðunámskeið og annað eins á Wim Hof námskeiðin síðan í febrúar 2018. Movement tímarnir eru líklegast það sem er stöðugast hjá okkur. Við kennum allir Movement tímana sem eru breytilegir en þó með ákveðnum fókus. Þar erum við komin með rosalega góðan, fastan kúnnahóp með 150 iðkendum sem við erum mjög þakklátir fyrir. Viðtökurnar hafa því verið alveg geggjaðar!

Nokkur lokaorð um framtíðarmarkmiðin?

Í raun bara að halda áfram að gera það sem við erum að gera! Halda huganum opnum og festast ekki í einhverjum aðferðum heldur vera opnir fyrir nýjum aðferðum sem leiða til betra lífs fyrir okkur og iðkendur okkar. Það skiptir mestu máli að vera sveigjanlegir, opnir og móttækilegir fyrir nýjum aðferðum og leita áfram að því sem virkar. Hægt er að kynna sér starfsemina og námsleiðirnar sem eru í boði á vefsíðunni www.primal.is.

Kristjana Björg Sveinsdóttir


Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir

Mens sana in corpore sano

Mens sana in corpore sano

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið...

Saltfiskstappa sem klikkar aldrei!

Saltfiskstappa sem klikkar aldrei!

Jóhanna Þórhallsdóttir er heiðurskokkur vikunnar en hún lumar á ótalmörgum uppskriftum sem hún hefur sankað að sér í gegnum tíðina. Hún er flestum kunnug sem söngkona og kórstjóri en stýrir í dag Gallerí Göngum í Háteigskirkju, hefur nýlega lokið listnámi hjá...

Frumskógur upplýsinga

Frumskógur upplýsinga

Heilsa, margþætt hugtak, áhrifaþættirnir ólíkir og áhrifin fjölbreytt. Ein mikilvæg breyta í almennu heilbrigði er mataræðið, eldsneyti vélarinnar. Það hefur hvoru tveggja bein og áþreifanleg áhrif en á hinn bóginn langvinn og ekki eins sýnileg. Rétt mataræði getur...

Ásdís Olsen gerir uppgötvanir og leitar sannleikans

Ásdís Olsen gerir uppgötvanir og leitar sannleikans

Ásdís Olsen er núvitundarkennari og markþjálfi. Hún er reyndur háskólakennari, ráðgjafi, fjölmiðlakona og fyrirlesari. Ásdís stundar nú doktorsnám á sviði núvitundar fyrir vinnustaði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Hvenær heldurðu að áhugi þinn á sjálfsrækt...

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég sé þolandi ofbeldis

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég sé þolandi ofbeldis

Það að ég sé þolandi ofbeldis gerir mig ekki að ævilöngu fórnarlambi, veiklynda, minnimáttar, eða ónýta á einhvern hátt. Sú fullyrðing sem sumir nota um að nauðgun sé sálarmorð á ALDREI rétt á sér. Þvert á móti er hægt að verða fullkomlega heil manneskja að nýju. Ég...

Tilgangurinn

Tilgangurinn

Hvað gerir mig ánægða, hamingjusama? Er ég núna að gera það sem ég á að vera að gera við líf mitt? Er ég á þeim stað sem ég á að vera komin á? Ég gæti núna verið að gera eitthvað stórkostlegt en er einhvern veginn föst í þessu neti. Er ég að sóa bestu árunum mínum í...

Hámarksheilsa fyrir alla

Hámarksheilsa fyrir alla

Það er áhugavert hvað skýtur upp kollinum þegar við veltum fyrir okkur orðinu „hámarksheilsa“. Sumir gætu séð fyrir sér myndir af vel skornu fitnessfólki, þekktum útivistarstjörnum eða landsliðsfólki í hópíþróttum meðan aðrir hugsa kannski um útlærða reiki- eða...

Við erum það sem við borðum!

Við erum það sem við borðum!

Margir tengja þessa fullyrðingu við einhverja ákveðna líkamsþyngd en hún segir í raun bara lítið brot af sögunni um heilsufarsástand okkar. Góð heilsa samanstendur af miklu fleiri mikilvægum þáttum þótt kjörþyngdarskalinn sé einnig gagnlegt viðmið varðandi heilsufar....

Hvers virði er orðsporið?

Hvers virði er orðsporið?

Orðið baktal hefur oft verið mér hugleikið en aldrei eins mikið og á undanförnum mánuðum þar sem ég hef eytt töluverðum tíma í vangaveltur um þetta krabbamein í mannlegum samskiptum. Ástæðan var aðallega sú að allt í einu fannst mér þessi meinsemd svo áberandi í...

Er nauðsynlegt að hjálpa líkamanum að hreinsa sig sjálfur?

Er nauðsynlegt að hjálpa líkamanum að hreinsa sig sjálfur?

Tengsl á milli lélegrar næringar og lífstílssjúkdóma eru orðin staðreynd í vestrænum samfélögum í dag. Heilsufarsvandamál eins og bólgur, ofnæmi, meltingarsjúkdómar, exem, astma, síþreyta, liða- og vefjagigt má ósjaldan rekja til vanvirkni í meltingarkerfi og því að...