Mens sana in corpore sano

13.05.2019 | Andi, Fólk

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið hraustur og vel á mig kominn, eins og sagt er. Ég er þakklátur fyrir það. Ég mælist með þrek og líkamsástand á við mann sem er 10 til 15 árum yngri en ég. Ég hef ekki þurft að hafa mikið fyrir því. Ég borða allan venjulegan mat og er nokkuð meðvitaður um hvað ég læt ofan í mig. Ég stunda útivist, hugleiðslu, líkamsrækt og reyni að passa upp á svefninn.

Ég er nýkominn til landsins eftir mánaðardvöl í Perú þar sem ég var að meðal annars að ganga uppi í Andesfjöllunum í 4.500 metra hæð. Ég varð ekki fyrir áhrifum af hæðarveiki, fór ekki í neina bólusetningu og borðaði mikið af grænmæti og ávöxtum sem vaxa í ríkum mæli í Perú og varð bara hraustari af því að anda að mér þunna loftinu. Ég fann þegar ég kom aftur heim að ég hafði aukið þrek og líkaminn fylltist af nýrri orku. Ég léttist um 5 kg og líður mjög vel. En þetta snýr að líkamanum og þegar líkaminn er í góðu standi þá ætti andlega hliðin samkvæmt öllum kokkabókum að vera í lagi, því við erum jú samsett af hvoru tveggja; líkama og sál. Mens sana in corpore sano (heilbrigð sál í hraustum líkama). Þetta er að vissu leyti rétt en alveg eins og líkaminn þarf virkni og iðkun eins þarf andlega iðkun til að viðhalda andlegu heilbrigði. Þar komum við að hugleiðslunni. Ég þarf ekki að sitja í Lotusstellingu með túrban á hausnum allan daginn til að geta hugleitt. Hugleiðsla felst í svo mörgu.

Við þekkjum öll þetta dæmigerða íslenska mynstur þegar allir kaupa sér kort í líkamsræktinni um áramót og ætla að ná af sér jólaspikinu eða á haustin þegar allir skrá sig á alls konar námskeið, auglýsingarnar frá ferðaskrifstofunum á vorin þegar allir bóka sólarlandaferðir fyrir sig og fjölskyldurnar, fermingarnar, vorprófin, útskriftirnar, vorverkin í garðinum, páskarnir, jólin og allt þetta sem við gerum. Ég fylgist með þessu úr fjarlægð og finnst þetta fyndið á köflum. Hjarðhegðun landans ríður ekki við einteyming, hugsa ég stundum. Að ég tali nú ekki um neyslustýringuna. Ég hef meðvitað á undanförnum árum slökkt á útvarpi og sjónvarpi. Ég horfi ekki á fréttir, les ekki blöð eða tímarit og leiði markvist hjá mér allan þennan áróður og auglýsingaherferðir. Ég vel af kostgæfni það sem ég les og skoða á netmiðlum. Ég skoða og legg mat á það hvort það sem ég tek inn muni gagnast mér eða ekki.

Ég er ekki neikvæður að eðlisfari. Ég er meira að segja frekar jákvæður. Ég hef skoðanir á ýmsu og skiptist á skoðunum við fólk án þess að troða mínum skoðunum upp á aðra. Mér finnst skoðanir annarra vera stundum áhugaverðar. Sumu er ég sammála, öðru ekki. Eins og gengur. En hvert er ég eiginlega að fara með þessu? Jú – ég lofaði sjálfum mér því þegar ég kom heim frá Perú að úthýsa stressi úr lífi mínu. Það er sagt að 70% allra innlagna á sjúkrahús megi rekja til streitu. Streita er eitt það skaðlegasta sem til er fyrir okkur. Eitt af því sem veldur streitu er hraði nútímans. Hraðanum fylgir ráðleysi og ráðleysinu fylgir minni vitund gagnvart sjálfum okkur. Andlega sem líkamlega. Við verðum samdauna streitunni og finnst við vera full af orku. En erum samt fjarverandi. Við erum svo dugleg. Við erum að gera svo margt skemmtilegt, merkilegt og mikilvægt. Við erum eiginlega ómissandi. En samt svo fjarverandi.

Svo keyrum við á vegg einn daginn.

Útbrunnin. Í taugaáfalli eða hjartaáfalli. Heilsan farin. Við verðum allt í einu sjúklingar og þurfum að bryðja 17 tegundir af lyfjum; stundum það sem eftir lifir ævinnar. Sumir enda á örorku. Takmörkuð lífsgæði. Enn og aftur erum við fjarverandi. Ótengd sjálfum okkur og náttúrunni. Ég er kannski að mála skrattann á vegginn, en þetta er samt sem áður staðreynd og tilfellin eru mörg og ég hef séð þau allt í kringum mig. Ég hef líka reynslu af því að hafa misst heilsuna. Einmitt af völdum streitu, hraða og ráðleysis. Hvað er til ráða?

Árið 1995 hætti ég að drekka áfengi. Það hafði ekki haft góð áhrif á mig svo ég ákvað að taka upp líf án áfengis. Ég fór inn í 12 spora samtök og byrjaði að stunda hugleiðslu. Ég lærði Krya Yoga og gekk í félagsskap sem heitir Self Realization Fellowship þar sem unnið er samkvæmt kenningum Paramahansa Yogananda. Ég varð gjörsamlega heillaður af honum og því sem hann kenndi. Smám saman tókst mér að læra að kyrra hugann með þeim hugleiðsluaðferðum sem hann kenndi. Í nokkur ár stundaði ég þetta reglulega en svo tók við stresstímabil þar sem ég var mikið að vinna og gera og græja. Heimsyfirráð eða dauði. Ég var á bullandi egótrippi og gleymdi alveg hugleiðslunni og bæninni. Því miður þá virðist eins og við álítum að það sé nóg að við höldum okkur í góðu líkamlegu formi og þar með komi hitt allt af sjálfu sér. Við getum bara haldið áfram að keyra okkur áfram á stressi og hraða svo lengi sem við mætum alltaf í ræktina.

En smám saman verður kvöð að mæta í ræktina og það verður stress líka. Við höfum bara tiltekinn tíma í ræktinni af því við þurfum að mæta einhvers staðar annars staðar þegar það er búið. Þannig gengur þetta áfram, dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð þar til við gefumst upp og getum ekki meira. Við erum úrvinda og skiljum ekkert í þessu. Þá er svipan tekin fram og við berjum okkur áfram eða refsum okkur fyrir að vera ekki nógu dugleg af því að dugnaður er höfuðdygð Íslendinga. Ef þú ert ekki duglegur þá ertu latur og það er sko bannað að vera latur á Íslandi. Þú þarft að vera duglegur, hafa nóg að gera og því meira sem þú hefur að gera því stærri ertu í augum sjálfs þín og heldur að þú sért stærri í augum annarra. Þessi áreynslukenndi lífsstíll er baneitraður kokteill fyrir andlega heilsu okkar. Fyrr eða síðar lendum við í andlegu gjaldþroti og því fylgir oftar en ekki líkamlegt gjaldþrot líka. Líklegra er þó að líkaminn gefist upp fyrr af því við erum löngu hætt að hlusta á skilaboðin sem hann sendir okkur. Við bara keyrum okkur áfram. Já, áfram! Stöðuhækkun, launahækkun, endurmenntun, klifra metorðastigann, upp,upp, mín sál og allt mitt … ógeð … það er sannarlega ógeð sem fylgir ef ekki er vel að gáð.

Þegar öllu er á botninn hvolft – hvað þurfum við? Þurfum við allt þetta dót? Alla þessa bíla? Öll þessi hús? Alla þessa peninga? Hvers virði er þetta allt sem við höfum unnið fyrir hörðum höndum alla okkar ævi þegar heilsan bilar? Hvað eru raunveruleg lífsgæði?

Fyrir mitt leyti þá á ég ekki neitt af þessa heims gæðum. Ég á ekkert nema sjálfan mig. Ég á þetta eina líf. Ég fékk þennan eina líkama og ég fæ ekki annan í staðinn ef eitthvað bilar. Þess vegna er ég ákveðinn í að hugsa vel um það sem mér hefur verið trúað fyrir. Sjálfan mig og börnin mín. Börnin mín þurfa ekki peninga frá mér. Ég get ekki gefið þeim peninga. En ég get elskað þau, verið til staðar og kennt þeim á lífið, hjálpað þegar þarf og stutt þau í gegnum erfiðleikana af því ég hef gengið í gegnum erfiðleika sjálfur. Ég get miðlað þeim af minni reynslu og þau geta tekið mið af því ef þau vilja þótt þau að öðru leyti verði að rekast á veggina sjálf til að læra. Þannig verða þau að sjálfstæðum og sjálfbjarga einstaklingum. Ég get verið þeim fyrirmynd og gengið á undan með góðu fordæmi. Þau læra ekkert ef ég rétti þeim allt upp í hendurnar og hleyp alltaf til og geri allt fyrir þau. Jafnvel þótt ég væri milljarðamæringur (sem ég hef engan áhuga á n.b.) mundi ég ekki gera það.

Fyrir mér er andlegt heilbrigði jafn mikilvægt og líkamlegt heilbrigði. Þess vegna stunda ég hugleiðslu og bæn. Já, ég sagði hugleiðslu og bæn. Það hjálpar mér að vera í sambandi við sjálfan mig og geta séð hvað fer aflaga í lífi mínu á hverjum tíma. Ég er viðstaddur. Ekki fjarverandi. Ég ástunda kærleika og umhyggju. Samkennd. Það er eitt af því sem skiptir máli fyrir mína andlegu heilsu. Ég finn til með öðrum og ef það er eitthvað sem ég get gert til að þjóna meðbræðrum mínum eða systrum þá geri ég það. Ég þarf ekki að verða móðir Teresa eða heilagur Frans af Assisí til að gera það. Þetta felst allt í þessu smáa. Hringja í vinina ef ég veit að þeir eru að fást við erfið verkefni lífsins, spjalla við dætur mínar um eitthvað sem skiptir máli. Brosa til unglingsins á kassanum í Bónus. Bjóða ókunnugum góðan dag. Horfa á heiminn með augum hins skilyrðislausa kærleika. Fyrirgefa þeim sem verður á að koma dónalega fram við mig. Bjóða einhverjum til mín í mat. Hitta vin minn eða vinkonu á kaffihúsi. Ef ég ætlast til að heimurinn gefi mér án þess að ég gefi neitt í staðinn þá er ég á villigötum. Hins vegar fæ ég í samræmi við það sem ég gef. Oftast. Laun heimsins eru ekki endilega vanþakklæti, en ef ég ástunda þakklæti þá dregur stórlega úr vanþakklæti heimsins gagnvart mér.

Ég get þakkað fyrir það að vakna allsgáður alla morgna ársins og get þakkað enn betur fyrir að svo hafi verið í 24 ár. Ég get þakkað fyrir erfiðleikana mína því þeir hafa gert mig sterkari. Ég þakka fyrir þessa vordaga þegar sólin brosir við mér og ég þakka fyrir að þurfa ekki að kljást við neina líkamlega krankleika. Ekki enn að minnsta kosti. Ég þakka fyrir það að hafa ekki orðið reiður við nokkurn mann í mjög langan tíma. Ég þakka fyrir það að finna til, missa, gráta, sakna og sleppa takinu á því sem þjónar mér ekki lengur. Ég gæti haldið áfram svona nokkrar blaðsíður í viðbót en til að gera langa sögu stutta þá finnst mér í sjálfu sér ekkert flókið eða erfitt að vera andlega heilbrigður. Mér fannst hins vegar hugmyndin um andlegt heilbrigði vera eitthvað svo óhöndlanleg þangað til ég áttaði mig á því að hamingjan væri falin í helgiskríni einfaldleikans.

Það var það sem vakti mig.

Síðustu tíu ár lífs míns hafa farið í það að vakna smám saman. Vakna til vitundar um andlegt líf í veraldlegum heimi. Að koma auga á sannleikann í heimi blekkingar. Að sjá það ljóta i heiminum með augum kærleikans. Að sjá tækifæri í erfiðleikunum en ekki erfiðleika í tækifærunum. Að elska það sem er í stað þess að vilja breyta öllu í það horf sem minn vilji stendur til. Að vilja það sem ég hef í stað þess að heimta eitthvað sem ég hef ekki. Að lifa í möguleikunum en ekki í hindrunum. Að anda rólega inn og út þegar eitthvað kemur fyrir í stað þess að ofanda og missa meðvitund. Að telja upp að tíu áður en ég hleypi reiðinni út og upp í hundrað ef því er að skipta. Að fyrirgefa í stað þess að burðast með gremju. Að tjá mig í stað þess að þegja. Að þegja þegar ég hef ekkert fram að færa. Að vera auðmjúkur gagnvart þeim sem fara fram með hroka. Að standa uppréttur og halda með sjálfum mér á hverju sem gengur og setja öðru fólki mörk í kærleika. Þessi vakning mín hefur aukið lífsgæði mín til muna. Ég er hraustari og heilbrigðari á sál og líkama og það er áþreifanlegt.

Góðar stundir.

Valgeir Skagfjörð


Valgeir Skagfjörð er mikill áhugamaður um andlega heilsu en hann er flestum kunnugur sem leikari, tónlistarmaður og kennari. Hann hefur um nokkurt skeið einnig unnið sem markþjálfi og lífskúnstner. Um þessar mundir er hann að stunda nám í Cranio Sacral og býður upp á sjamanískar heilunarmeðferðir. 

Myndir eru fengnar hjá Valgeiri og birtar með hans leyfi.

Veitingar vorsins

Veitingar vorsins

Ævintýri Sono Matselja hófst síðasta sumar á Flateyrarvagninum og fyrr á þessu ári vöktu þær mikla athygli á Götumarkaðnum með dýrindis grænkeramat. Þær opnuðu veitingastað sinn í Norræna húsinu ekki alls fyrir löngu og samnýttu krafta sína með vinum sínum hjá MatR...

Kjarnakona með ástríðu fyrir heilsu

Kjarnakona með ástríðu fyrir heilsu

Sandra Lárusdóttir hefur verið í sjálfstæðum rekstri í 22 ár en frá árinu 2014 hefur hún rekið hina vinsælu húð- og líkamsmeðferðarstofu Heilsa & Útlit í Hlíðarsmáranum. Námskeiðin sem hún hefur tekið í heilsu- og fegurðarmeðferðum eru orðin ótal mörg en í dag...

Mikilvægast er að mæta

Mikilvægast er að mæta

Helen Dögg Karlsdóttur hefur skapað sér afar gott orðspor sem jógakennari en ekki síður fyrir sínar dásamlegu kvennadekurferðir sem slegið hafa rækilega í gegn hjá ótal konum. Starfsferill hennar er jafn fjölbreytilegur og hún sjálf. Allt frá því að vinna á verbúð í...

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Leit mín að betri líðan og bættri heilsu hefur leitt mig inn á ótrúlegustu slóðir í gegnum tíðina og stundum alla leið út fyrir landsteinana þar sem aðgengi að ýmsum náttúrulegum efnum á Íslandi er frekar takmarkað. Þannig hef ég reynt allar mögulegar leiðir og...

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Við heyrum stundum sagt að besta leiðin til að bregðast við ýmsu sem aflaga fer í lífinu sé að „sleppa takinu“ eða í fleirtölu að sleppa tökunum. Persónulega finnst mér best að nota „að sleppa takinu“ því það er eitthvað sem ég tengi við.  Að sleppa takinu hljómar í...

Sjálfsímynd ungs manns

Sjálfsímynd ungs manns

Pistill vikunnar kemur frá Ólafi Andra Gunnarssyni, 24 ára háskólanema sem býr í Borgarfirði. Hann hefur varið mestum tíma sínum í nám á undanförnum árum en eftir að hann lauk námi á náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni hóf hann meistaranám í lögfræði við...

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Sölvi Tryggvason gaf nýverið út bókina “Á eigin Skinni” sem er afrakstur áratugar vegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi...

Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing

Hvað er sjálfsvirðing? Í hverju felst hún? Á hverju byggist hún? Hvaða máli skiptir að hafa sjálfsvirðingu? Er sjálfsvirðing það sama og sjálfsmynd? Um hvað erum við að tala þegar við notum orðið sjálfsvirðing? Jú, ætli við vitum ekki flest hvað sjálfsvirðing er, eða...

Halló gerandi!

Halló gerandi!

 Þú veist kannski ekki af því að þú ert að beita ofbeldi. Varst jafnvel sjálfur beittur ofbeldi. Kannski ertu orðinn svo samdauna því að níðast á öðrum að þú þekkir einfaldlega ekkert annað. Kannski varðstu fyrir heilaskaða eða þjáist af persónuleikatruflun og getur...

Tinder fyrir lofaða

Tinder fyrir lofaða

Pistlahöfundur vikunnar er engin önnur en Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi. Fyrir 20 árum byrjaði Ragga að fjalla um kynlíf í fjölmiðlum og fékk mikla athygli fyrir  sína fræðandi, skemmtilegu og hispurslausu pistla. Þessi...