Ásdís Olsen gerir uppgötvanir og leitar sannleikans

27.03.2019 | Fólk

Ásdís Olsen er núvitundarkennari og markþjálfi. Hún er reyndur háskólakennari, ráðgjafi, fjölmiðlakona og fyrirlesari. Ásdís stundar nú doktorsnám á sviði núvitundar fyrir vinnustaði við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.

Hvenær heldurðu að áhugi þinn á sjálfsrækt hafi byrjað fyrir alvöru?

Veistu ég held bara að ég sé fædd svona svei mér þá. Ég er svo forvitin og mér finnst fólk svo áhugavert. Svo er ég auðvitað með einhver áföll úr barnæsku sem að voru alltaf að banka upp á þannig að einhvers staðar inni í mér vissi ég að ég var ekki alveg heil. Ég bara hef þurft að hafa mjög mikið fyrir því að þroskast. Mér finnst eins og ég hafi oft verið að þvælast fyrir sjálfri mér og kannski skil ég það allt saman mjög vel í dag hvernig þetta ferðalag hefur þróast. Sjálfsvinnan hefur verið stór partur af lífi mínu. Þessi forvitni um sjálfa mig og löngun til að vera heilsteypt og kærleiksrík manneskja.

Hverjir eru mikilvægustu þættirnir í lífinu að þínu mati til þess að njóta góðrar andlegrar heilsu og hamingju?

Ég held að það sé þetta „mindset“ hvernig afstaðan okkar, hugarfar og meðvitundin er. Það liggur allt í því. Í núvitundinni erum við alltaf að reyna að vakna til meðvitundar um skynjun okkar, upplifun og tilfinningar. Við njótum ekkert lífsins í huganum, það gerist á öðrum svæðum í heilanum. Núvitundin er forsendan fyrir því að njóta lífsins og vera hamingjusamur.

Hvaða verkfæri nýtast best fyrir almenna heilsu og vellíðan?

Getan til þess að upplifa og njóta eða núvitund er lykillinn og líka sjálfsvinsemd en hún er svo mikill grunnur að öllu því góða sem við gerum fyrir okkur. Okkur verður að þykja svolítið vænt um okkur til þess að gera góða hluti fyrir okkur. Mér finnst það miklu líklegra til árangurs að borða hollan mat af því ég vil gera vel við mig. Ég held hreinlega að allar fíknir, flóttaleiðir og sjálfseyðandi hegðun sé út af því að við erum að hafna okkur en þá erum við að brjóta á okkur og bæla niður einhver sár. Núvitundin er alltaf byrjunin. Á öllum núvitundarnámskeiðum sem ég kenni er sjálfsvinsemdinni svo fléttað inn í til að hjálpa okkur með að samþykkja okkur eins og við erum.

Hvað er mest gefandi við að kenna fólki núvitund og sjálfsrækt?

Sko ég er náttúrulega sérkennileg blanda en ég er líka svona greinandi hugur, alltaf með fræðimannamódelið uppi. Ég er stöðugt að leita að sannleikanum. Ég á nokkrar svona sannleikskenningar sem ég er alltaf að leita staðfestingar á. Aðalkenningin mín núna eða pælingin er að við erum annað hvort kærleiksrík eða óttaslegin. Ég sé þetta í mínu lífi og annarra. Ef við erum kærleiksrík, þá líður okkur vel, allt gengur upp, við getum tengst öðrum, við erum að njóta lífsins en ef við erum óttaslegin þá erum við hrædd, í vörn, við ýtum fólki frá okkur og lokum á alla möguleikana okkar. Þegar við erum að leita að svona einföldum módelum, þá finnst mér eins og þetta sé sannleikurinn minn í dag. Að leitast meira og meira við að vera í kærleikanum. Það má einnig heimfæra þetta upp á hægra og vinstra heilahvel. Vitræni hluti heilans og svo aftur á móti þetta svæði í heilanum sem hefur að gera með tilfinningar, skynjun, innsæi, flæði, vellíðan og allt það. Í nútvitundinni erum við stöðugt að þjálfa taugatengingar á þessum svæðum heilans vellíðaninnar og fáum að sjá hvernig svæði heilans sem hafa að gera með kvíða, „fight & flight“ svæði fá minni virkni. Þannig að það er til mikils að vinna! Við getum séð þetta svona: ótti og kærleikur, hægra og vinstra heilahvelið eða heilinn og hjartað. Svo getum við líka talað um efni sem líkaminn framleiðir eins og dópamín og oxytósin hamingjuhormónin á móti kortisóli og adrenalíni sem eru streitu- og kvíðaefnin. Spurningin er „hvað ætlum við að rækta?“ og kannski lýsir fallega sagan þessu best um indíanadrenginn sem spurði afa sinn um góða og vonda úlfinn. Góði og vondi úlfurinn eru að takast á og strákurinn spyr afa sinn „hvor úlfurinn vinnur?“ og afinn segir „Sá sem þú fóðrar, vinnur!“

„Stóri sannleikurinn er sá að við erum ekki að fara að sigra heiminn með vitinu heldur með hjartanu!”

Það er svo stutt síðan við uppgötvuðum tilfinningagreind og við hérna á Vesturlöndum, ég segi það alveg óhikað, að við erum sko svo misþroska. Eins og dæmisagan af litlu börnunum sem eru hamingjusöm í flæði að njóta. Þá komum við og viljum endilega fá þau til þess að flokka, greina og meta og það er það sem við gerum í uppeldis- og skólakerfinu. Eins og t.d. „ekki lykta af blóminu, við þurfum að læra hvað það heitir eða hvað þau eru mörg eða fara úr þessu svæði heilans sem hefur að gera með skynjun og upplifun yfir í þetta flokkunarforrit okkar. Erum búin að leggja svo ótrúlega áherslu á vitræna þætti eins og að flokka, skilgreina, meta endalaust í staðinn fyrir að upplifa og njóta. Við erum farin að sjá fram á að tölvutækni er að leysa svo margt af hólmi sem vitræni hluti heilans hefur gert þannig að það verður meira og meira einhver gervigreind sem sér um þessi verkefni sem krefjast hárrar greindarvísitölu á þessum vitræna skala. Á meðan hlýtur því mannlegi þátturinn að fara að skipta meira máli; að vera hæfur í samskiptum, geta skapað, verið í tengslum við tilfinningar og flæði. Auðmýkt og kærleikur verða helstu mannkostirnir í framtíðinni. Stóri sannleikurinn er sá að við erum ekki að fara að sigra heiminn með vitinu heldur með hjartanu!

Þú talar svolítið um aha! augnablikin á stefnumótunarnámskeiðinu þínu hjá SÁÁ. Geturðu lýst þeim nánar?

Já, það er þessi opinberun þegar maður gerir óvæntar uppgötvanir og finnur sannleikann sinn eins og ég hef svo oft fengið að upplifa. Það er einmitt til svo ofboðslega fallegt lag með hljómsveitinni Evu þar sem þær lýsa því hvernig maður klökknar þegar maður finnur sannleikann. Ég tengi svo vel við það. Þegar þetta aha! gerist er ég er alveg komin innst inn í kjarnaviðhorfin mín. Þá verður eitthvað sem samræmist og einhver ákveðinn sannleikur birtist. Hugsanlega líka þegar einhver hefur náð að skilja mann og þá verður einhver auka viðbót. Ég gæti talið upp svona 200 aha! augnablik sem ég hef upplifað sem er svo ótrúlega skemmtilegt. Það ánægjulegasta við tímabilið sem ég er að upplifa núna á öðru þroskatímabili mannsins, þetta miðaldra tímabil þar sem við erum eiginlega að eignast okkur sjálf aftur, er að ég er alltaf að breytast. Svo er ég allt í einu á nýjum stað og hugsa „vááá ég hefði ekki getað vitað að mér gæti liðið svona áður en ég fékk að prófa það sjálf!“ Við erum alltaf í einhverri þróun, ég veit ekkert almennilega hvað er handan við hornið en svo er ég allt í einu komin þangað og þá er það svo mikil uppgötvun.

Nú ert þú að vinna að doktorsverkefni í sambandi við núvitund. Geturðu sagt okkur aðeins frá því?

Ég er að vinna með módel um hvernig við innleiðum núvitund á vinnustaði. Hugmyndin er að módelið nýtist fyrir vinnustaði á þann hátt að þar sem þessar áherslur verða teknar upp sé árangurinn sá að fólk upplifi öryggi, vellíðan og sátt á vinnustaðnum. Við erum með kenningu um það að á vinnustað þar sem fólk er í tengslum við sjálft sig og aðra, sé öruggt og auðmjúkt, þá gerist einfaldlega miklu betri hlutir. Ekki einungis að fólki líður betur heldur eigi það líka betra samstarf við aðra, læri frekar af mistökum, eigi uppbyggilegri samskipti og hlusti betur á hvort annað. Þannig verði hugsanlega miklu betri hugmyndir til. Svo er bara svo ótrúlega spennandi að geta verið í flæði og sátt í vinnunni. Við vitum að þessir persónulegu þættir eru svo oft að þvælast fyrir fólki í vinnunni. Kulnun er t.d. oft út af því að fólk er ekki meðvitað um að það er að deyja úr einhverri skömm, sektarkennd og það er að fela samviskubit af því það er aðeins að stelast eða fela mistök í staðinn fyrir að mega bara vera mannlegur og tala um alla hluti, að allt sé uppi á yfirborðinu. Við þurfum ekki stanslaust að vera einhvern veginn í einhverjum rembing út af því að við séum ekki að standa okkur. Það er svo ofsalega fast í kerfinu okkar að við séum ekki að standa okkur nógu vel. Það þarf ekki að vera þetta streð, við eigum ekkert að þurfa að vera að streða í þessu lífi.

Hvers vegna er mikilvægt að láta drauma sína rætast?

Þetta að „láta drauma sína rætast“ tengist áhuga mínum á því að við séum sönn og samkvæm sjálfum okkur. Mér finnst svo áhugavert að skoða hvernig við höfum verið forrituð með félagsmótun og í uppeldinu. Dætur mínar eru þannig alltaf að kenna mér eitthvað svo að ég þarf stöðugt að vera að uppfæra mig. Ég er því löngu búin að átta mig á því að það er enginn sannleikur í þeim hugmyndum og viðhorfum sem ég er með, ekki frekar en hjá einhverjum öðrum. Það var bara einhverju troðið upp á mig á sínum tíma sem ég sit uppi með og þess vegna er ég stöðugt í endurskoðun. Í núvitundinni fáum við að átta okkur á því, hvað af þessu í kerfinu okkar, er raunverulega okkar og hverju var troðið upp á okkur. Ég sé þetta svolítið sem þessi vitræni hluti heilans sé þessi forritun sem byrjaði þegar við fæddumst og hefur tekið svo mikið pláss frá því sem er í kjarnanum okkar, það sem er einstakt og sérstakt við okkur. Þá meina ég þessa sjálfsvitund eða stundum er líka talað um yfirvitundina þar sem við getum verið meðvituð um allt sem er að gerast hjá okkur á hverjum tíma. Punkturinn í þessu er að við höfum öll eitthvað fram að færa og eitthvað sem við höfum ástríðu fyrir sem við höfum kannski ekkert fundið eða áttað okkur á. Það er svo fallegt þegar fólk er búið að átta sig á því hvert það vill fara og þá er eiginlega ekkert sem getur stoppað það ef það er búið að finna þessa ástríðu. Ástríðan er tilfinning og þú þarft að hafa einhverja tilfinningagreind til þess að finna ástríðuna þína. Hún er eins og eldur í maganum þínum og ef þú ert búin að loka og bæla allt niðri þá veistu ekki einu sinni hvað hrífur þig. Forsendan fyrir því að vita hver þú ert, hvað hrífur þig, hvert langar þig að fara, hvað vekur ánægju og gleði er núvitundin. Við þurfum að geta verið meðvituð í eigin skinni til þess að geta áttað okkur á því.

Hver er framtíðarsýn þín fyrir Íslendinga þegar kemur að sjálfsrækt?

Draumurinn minn er að fólk sé í tengslum við hvort annað og lifi í takt við náttúruna. Ég sé fyrir mér sjálfbær þorp þar sem við erum í samvinnu við að sjá okkur fyrir þörfum okkar, mengum sem minnst og samnýtum sem mest. Við fengjum hamingju út úr því að tilheyra hvort öðru í samfélagi sem við erum mörg hver búin að fara á mis við í firringu nútímans og hefðum aðgang að lífrænni fæðu sem við ræktuðum og nýttum í nágrenni við okkur til þess að lágmarka skaðann og tryggðum þannig heilbrigði okkar sem mest. Fyrir mig væri þetta mikilvægast þar sem ég þarf svo mikið á náttúrunni að halda til þess að vera hamingjusöm. Ég bara sé ekki fyrir mér hvað gerist ef við höfum ekki aðgang að náttúrunni og getum ekki farið út að anda, hlaupa, leggjast í mosann og leika okkur. Ef ég ætti töfrasprotann, segir Ásdís og hlær, yrði mikið jóga, mikil hugleiðsla og það yrði trommað og dansað á kvöldin, ekki horft á sjónvarp og svo væri föndrað, drukkið te, farið í swet og kakóseremóníur í hamingjuþorpunum.

Okkur hjá hámarksheilsa.is finnst þetta mjög spennandi framtíðarsýn og vonandi getum við fengið okkur kakósopa með henni Ásdísi í einhverju hamingjuþorpinu sem allra fyrst. Fyrir þá sem vilja vita meira þá er hægt að sjá upplýsingar hér: www.mindful.is

Kristjana Björg Sveinsdóttir


Ljósmynd: Helga Óskarsdóttir

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Leit mín að betri líðan og bættri heilsu hefur leitt mig inn á ótrúlegustu slóðir í gegnum tíðina og stundum alla leið út fyrir landsteinana þar sem aðgengi að ýmsum náttúrulegum efnum á Íslandi er frekar takmarkað. Þannig hef ég reynt allar mögulegar leiðir og...

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Við heyrum stundum sagt að besta leiðin til að bregðast við ýmsu sem aflaga fer í lífinu sé að „sleppa takinu“ eða í fleirtölu að sleppa tökunum. Persónulega finnst mér best að nota „að sleppa takinu“ því það er eitthvað sem ég tengi við.  Að sleppa takinu hljómar í...

Sjálfsímynd ungs manns

Sjálfsímynd ungs manns

Pistill vikunnar kemur frá Ólafi Andra Gunnarssyni, 24 ára háskólanema sem býr í Borgarfirði. Hann hefur varið mestum tíma sínum í nám á undanförnum árum en eftir að hann lauk námi á náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni hóf hann meistaranám í lögfræði við...

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Sölvi Tryggvason gaf nýverið út bókina “Á eigin Skinni” sem er afrakstur áratugar vegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi...

Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing

Hvað er sjálfsvirðing? Í hverju felst hún? Á hverju byggist hún? Hvaða máli skiptir að hafa sjálfsvirðingu? Er sjálfsvirðing það sama og sjálfsmynd? Um hvað erum við að tala þegar við notum orðið sjálfsvirðing? Jú, ætli við vitum ekki flest hvað sjálfsvirðing er, eða...

Halló gerandi!

Halló gerandi!

 Þú veist kannski ekki af því að þú ert að beita ofbeldi. Varst jafnvel sjálfur beittur ofbeldi. Kannski ertu orðinn svo samdauna því að níðast á öðrum að þú þekkir einfaldlega ekkert annað. Kannski varðstu fyrir heilaskaða eða þjáist af persónuleikatruflun og getur...

Tinder fyrir lofaða

Tinder fyrir lofaða

Pistlahöfundur vikunnar er engin önnur en Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi. Fyrir 20 árum byrjaði Ragga að fjalla um kynlíf í fjölmiðlum og fékk mikla athygli fyrir  sína fræðandi, skemmtilegu og hispurslausu pistla. Þessi...

Að tapa ekki gleðinni

Að tapa ekki gleðinni

Taktu lífinu ekki of alvarlega, finndu húmorinn í sjálfum þér, aðstæðum og öðru fólki. Reyndu að fjölga samverustundum með vinum og fjölskyldu. Mundu að tíminn með þeim er takmarkaður, dýrmætur og knappur í öllu stóra samhenginu. Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og...

Mens sana in corpore sano

Mens sana in corpore sano

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið...

Saltfiskstappa sem klikkar aldrei!

Saltfiskstappa sem klikkar aldrei!

Jóhanna Þórhallsdóttir er heiðurskokkur vikunnar en hún lumar á ótalmörgum uppskriftum sem hún hefur sankað að sér í gegnum tíðina. Hún er flestum kunnug sem söngkona og kórstjóri en stýrir í dag Gallerí Göngum í Háteigskirkju, hefur nýlega lokið listnámi hjá...