Sjálfsvirðing

12.06.2019 | Andi, Samfélagið

Hvað er sjálfsvirðing? Í hverju felst hún? Á hverju byggist hún? Hvaða máli skiptir að hafa sjálfsvirðingu? Er sjálfsvirðing það sama og sjálfsmynd? Um hvað erum við að tala þegar við notum orðið sjálfsvirðing? Jú, ætli við vitum ekki flest hvað sjálfsvirðing er, eða höfum að minnsta kosti hugmynd um hvað hún er og í hverju hún felst. Það sem mig langar að skrifa um er endurreisn sjálfsvirðingar, eða uppreisn. Uppreist sjálfsvirðing. Samkvæmt orðanna hljóðan merkir sjálfsvirðing það að bera virðingu fyrir sjálfum sér eða að virða sjálfan sig. Sá sem virðir sjálfan sig hefur alla jafna góða sjálfsmynd líka, svo þetta tvennt hangir saman. Uppreist sjálfvirðing er sú stærsta gjöf sem ég hef fært sjálfum mér á undanförnum árum.

Ég þurfti að sæta miklu ofbeldi þegar ég var að alast upp. Bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu. Barn sem verður fyrir slíku ofbeldi hefur ekki mikla sjálfsvirðingu. Barnið lærir að það er einskis virði og veitist þar af leiðandi erfitt að byggja upp sjálfvirðingu á fullorðinsárum. Ég var slíkt barn. Þegar ég var kornabarn vissi ég hvað ég vildi og þurfti. Ég kallaði á það með gráti og bendingum eins og ómálga börn gera. Þegar ég fékk meira vit varð mér ljóst að ég fékk ekki alltaf þarfir mínar uppfylltar.

Móðir mín var veikur alkóhólisti með persónuleikaraskanir og faðir minn bjó í útlöndum og var aldrei til staðar. Inn í líf mitt kom maður sem átti að heita sjúpfaðir minn en hann var líka drykkfelldur og ofbeldisfullur. Þetta fólk trúði á uppeldisaðferðir sem fólu í sér ofbeldisfullar refsingar fyrir hvers kyns yfirsjónir og orðræðu sem ekki er hægt að vitna til, hvorki í rituðu né töluðu máli. Það sem fyllti eyru mín, særði augu mín og meiddi líkama minn gerði mig að óttaslegnu barni sem aldrei gat verið öruggt um neitt. Óvissan og öryggisleysið gerðu það að verkum að ég flúði á náðir eigin ímyndunarafls og hvarf inn í minn eigin hugarheim þar sem allt var gott, ég varð ekki fyrir neinu ofbeldi og ég var hetjan sem felldi alla drekana, bjargaði prinsessum og varð kóngur. Ég var svo lánsamur að hafa fengið ýmiss konar eiginleika og hæfileika í vöggugjöf, en sá eiginleiki sem kom í veg fyrir að ég yrði fullkominni geðveiki að bráð var stríðsmaður sem bjó hið innra. Sá stríðsmaður lærði að lifa af og þola aðstæðurnar. Sakleysi mínu var rænt þegar ég varð fyrir kynferðisofbeldi og æska mín öll var lituð af alkóhólisma, ofbeldi, geðveiki, vanrækslu, blekkingum, lygum, óheiðarleika, siðferðisbrestum, hræsni og þversögnum þar sem Kristileg gildi fóru í berhögg við allt ofbeldið. Ég átti alltaf erfitt með að skilja hvernig það samræmdist kenningum Krists að berja börn til óbóta eða að eiginmenn væru að lúskra á konunum sínum og niðurlægja þær með orðum.

Af einhverju meðfæddu hyggjuviti fór mér að skiljast að þessu fólki var ekki alltaf sjálfrátt. Það var á einhvern máta óeðlilegt eða frábrugðið því sem við köllum venjulegt fólk. Ég hafði viðmið annars staðar frá og þá gerði ég mér grein fyrir að heimilið mitt var fullkomlega óeðlilegt en mér hafði tekist að læra að haga mér eðlilega í óeðlilegum aðstæðum en á sama hátt hegðaði ég mér óeðlilega í eðlilegum aðstæðum. Þetta hefur verið kallað meðvirkni eða virkniröskun og sömuleiðis tenglsaröskun. Gott og vel. Við getum sett alls konar merkimiða á hegðun okkar en ég var algjörlega vanhæfur til að skilja hvers vegna mér fannst framlag mitt til heimsins vera lítils virði og ég sjálfur á sama hátt. Samt slóst egóið mitt við aðstæðurnar og heimtaði viðurkenningu fyrir það sem ég hafði þó upp á að bjóða. Stundum fékk ég klapp á bakið og þá kom yfir mig hamingjutilfinning. Þessi tilfinning sem margir kannast við, að finnast eins og maður hafi afrekað eitthvað fyrir eigin tilverknað og verðleika. En æðra sjálfið, innsti kjarninn var svo fjarlægur að ég barðist um á hæl og hnakka til að öðlast viðurkenningu og samþykki frá hjörðinni.

Nú hef ég ekki einasta týnt hjörðinni, heldur er ég hættur að fylgja henni og hef fundið mína eigin andlegu leið í átt til persónulegs þroska. Á þeirri leið hefur mér auðnast að endurreisa brostna sjálfsvirðingu. Það sem reið baggamuninn var mín eigin meðvitund og fúsleiki til að horfast í augu við sjálfan mig. Ekki við persónuna sem ég var að reyna að vera heldur við sjálfan mig eins og ég er í raun og veru. Þessi óendanlega vitund um æðri mátt og að vera hluti af alheiminum. Mér tókst að greina á milli þess að lifa í takt við eigin vitsmuni, félagslega stöðu og gildi samfélagsins og hins að lifa í tengslum við tilfinningar mínar, treysta eigin innsæi og trúa alheiminum fyrir lífi mínu.

Þegar hjartað ræður för þá er ég ekki í ótta um að það sé verið að taka eitthvað frá mér eða að fá ekki að tilheyra hjörðinni og það getur á stundum verið einmanalegt á þessari andlegu leið. Já, en ég vil frekar vera vakandi, upplýstur og laus við óttann en að ferðast hálf sofandi í gegnum lífið með það eitt að leiðarljósi að uppfylla kröfur sem samfélagið setur. Það er ekki þar með sagt að ég segi mig frá lögum og reglum þessa sama samfélags. Þetta samfélag er samsett á ákveðinn máta og ég er ekki endilega sáttur við það á allan hátt. Margt er gagnrýni vert að mínu viti en ég þarf ekki að fara í stríð út af því. Fyrir mig skiptir mestu máli að lifa með reisn – hvernig svo sem ég lifi. Mannleg reisn. Sjálfsvirðing mín gerir kröfur um það að ég fái að njóta þess að lifa með mannlegri reisn. Það ætti að vera klappað í stein, alls staðar. Um allan heim. Allir eiga skilið að lifa með mannlegri reisn.

Ég endurreisti ekki sjálfsvirðingu mína á því sem egóið mitt býr til eða með þeim mælistikum sem samfélag okkar hefur búið til fyrir okkur til að meta virði okkar sem einstaklinga. Sjálfsvirðing mín var endurreist með því að skoða sjálfan mig ofan í kjölinn og komast að því hver ég er, hvaðan ég kem og hvað ég hef aðhafst í lífinu til að meta mitt eigið virði. Út úr þeirri rannsókn varð þessi niðurstaða til:

Ég er maður; sem þýðir að ég á skilið að lifa með mannlegri reisn hvaðan svo sem ég kem, hvað svo sem ég geri og hvaða annan merkimiða öðrum hefur þóknast að setja á mig. Ég ríf af mér þessa merkimiða og segi einfaldlega: Megi ég vera frjáls í líkama og anda. Megi ég anda að mér súrefni jarðar og þiggja af auðmýkt þær gjafir sem hún færir mér. Megi ég fylgja hjarta mínu á þessu ferðalagi sem líf mitt er og njóta hvers skrefs sem ég stíg. Megi ég öðlast dýpri skilning á mínu innsta eðli og víkka út eigin vitund. Megi ég vera laus úr því fangelsi að láta stjórnast af því hvað aðrir hugsa. Megi ég sjá heiminn með augum hins skilyrðislausa kærleika.

Þetta er ekki alltaf auðvelt. Ég hins vegar þurfti að vakna. Endurmeta gildin mín og viðhorf. Skipta um skoðanir og opna hjarta mitt fyrir kærleika heimsins. Við eigum hann öll skilið.

Valgeir Skagfjörð


Ljósmynd: Joshua Earle on Unsplash

Um ofbeldi og áfallabyrði

Um ofbeldi og áfallabyrði

Í íslenskum fréttum hefur á undanförnum mánuðum mikið verið rætt um aukningu á heimilisofbeldi hér á landi. Sérfræðingar hafa stigið fram og lýst yfir miklum áhyggjum af þróuninni. Það er ljóst að nú er ennþá brýnni þörf á því að bregðast við með auknum forvörnum og...

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Leit mín að betri líðan og bættri heilsu hefur leitt mig inn á ótrúlegustu slóðir í gegnum tíðina og stundum alla leið út fyrir landsteinana þar sem aðgengi að ýmsum náttúrulegum efnum á Íslandi er frekar takmarkað. Þannig hef ég reynt allar mögulegar leiðir og...

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Við heyrum stundum sagt að besta leiðin til að bregðast við ýmsu sem aflaga fer í lífinu sé að „sleppa takinu“ eða í fleirtölu að sleppa tökunum. Persónulega finnst mér best að nota „að sleppa takinu“ því það er eitthvað sem ég tengi við.  Að sleppa takinu hljómar í...

Sjálfsímynd ungs manns

Sjálfsímynd ungs manns

Pistill vikunnar kemur frá Ólafi Andra Gunnarssyni, 24 ára háskólanema sem býr í Borgarfirði. Hann hefur varið mestum tíma sínum í nám á undanförnum árum en eftir að hann lauk námi á náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni hóf hann meistaranám í lögfræði við...

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Sölvi Tryggvason gaf nýverið út bókina “Á eigin Skinni” sem er afrakstur áratugar vegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi...

Halló gerandi!

Halló gerandi!

 Þú veist kannski ekki af því að þú ert að beita ofbeldi. Varst jafnvel sjálfur beittur ofbeldi. Kannski ertu orðinn svo samdauna því að níðast á öðrum að þú þekkir einfaldlega ekkert annað. Kannski varðstu fyrir heilaskaða eða þjáist af persónuleikatruflun og getur...

Tinder fyrir lofaða

Tinder fyrir lofaða

Pistlahöfundur vikunnar er engin önnur en Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi. Fyrir 20 árum byrjaði Ragga að fjalla um kynlíf í fjölmiðlum og fékk mikla athygli fyrir  sína fræðandi, skemmtilegu og hispurslausu pistla. Þessi...

Að tapa ekki gleðinni

Að tapa ekki gleðinni

Taktu lífinu ekki of alvarlega, finndu húmorinn í sjálfum þér, aðstæðum og öðru fólki. Reyndu að fjölga samverustundum með vinum og fjölskyldu. Mundu að tíminn með þeim er takmarkaður, dýrmætur og knappur í öllu stóra samhenginu. Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og...

Mens sana in corpore sano

Mens sana in corpore sano

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið...