Um ofbeldi og áfallabyrði

14.09.2020 | Samfélagið

Í íslenskum fréttum hefur á undanförnum mánuðum mikið verið rætt um aukningu á heimilisofbeldi hér á landi. Sérfræðingar hafa stigið fram og lýst yfir miklum áhyggjum af þróuninni. Það er ljóst að nú er ennþá brýnni þörf á því að bregðast við með auknum forvörnum og meðferðarúrræðum fyrir þolendur. Almenn samfélagsleg vitneskja um neikvæðar afleiðingar ofbeldis á heilsufar einstaklinga virðist þó nokkuð mikil hér á landi en ótalmargar rannsóknir hafa einmitt sýnt fram á tengsl á milli ofbeldis og áfallastreituröskunar.

Með íslensku rannsókninni sem hófst árið 2018 “Áfallasaga kvenna” voru gríðarstór lóð lögð á vogarskálarnar þar sem 32.811 íslenskar konur tóku þátt og sýndu niðurstöðurnar m.a. að ofbeldi er það áfall sem felur í sér mestar líkur á áfallastreituröskun fyrir utan ýmis konar líkamlegan heilsubrest. Það var sláandi að samkvæmt úrtakinu, sem endurspeglaði þjóðina mjög vel út frá bakgrunni, höfðu 40% kvennanna orðið fyrir ofbeldi á Íslandi.

Áfallastreituröskun orsakast af reynslu á því að upplifa eða verða vitni að atburði eða áfalli sem ógnar lífi. Algeng einkenni áfallastreituröskunar eru svefnörðugleikar þar sem áfallareynslan kemur oft fram í martröðum og minningarendurvarpi. Samkvæmt rannsóknum eru fyrstu einkennin eftir ofbeldisáfall þunglyndi, sjálfsefi og yfirþyrmandi reiði hjá flestum þolendum. Eftir u.þ.b. fjórar vikur er farið að tala um langvarandi áhrif og áfallastreituröskun fer að gera vart við sig með hræðslu- og kvíðaköstum tengdum öllu því sem mögulega minnir á áfallið.

Það eru bein tengsl á milli þessarar röskunar við minnisleysi en öll þessi einkenni hafa skiljanlega mikil áhrif líf þolenda og samskipti þeirra við aðra. Að virðast andlega fjarverandi, einbeitingarskortur, að eiga erfitt með tengsl og einangrun eru allt einkenni áfallastreituröskunar. Af þessum orsökum eiga þolendurnir ósjaldan í erfiðleikum með félagsleg samskipti við fjöskyldu og vini og leiðir þá jafnvel til skilnaða og erfiðleika við að sinna uppeldi barna sinna. Þar sem þessi hópur fólks hefur farið í gegnum hræðilega lífsreynslu eru undirliggjandi áföll fljót að brjótast upp á yfirborðið. Þannig er margt sem getur orðið til þess að koma manneskjunni úr jafnvægi og minna á ofbeldið, t.d. ákveðið umhverfi, lykt, hljóð, litir, orð og þarf því í raun mjög lítið til að áfallastreitan geri vart við sig.

Þessi erfiða röskun getur verið nógu langvarandi og alvarleg til þess að hún hafi áhrif á daglegt líf þolandans og í verstu tilfellunum getur hún leitt til sjálfsmorðstilrauna. Auk röskunar á sálarlífi þolandans hefur hún greinilegar líffræðilegar breytingar á líkamlegu heilsufari í för með sér. Þannig er algengt að fólk með áfallastreituröskun sé einnig að glíma við geðsveiflur, kvíða, þunglyndi og ofnotkun lyfja og áfengis svo fátt eitt sé nefnt. Sjálf hef ég verið að vinna með áfallastreituröskun í mörg ár út af afleiðingum grófs ofbeldis og er enn í dag að átta mig á því hversu flókin þessi röskun getur verið. Það er mjög auðvelt að rugla einkennunum saman við aðrar raskanir eða hreinlega karaktereinkenni. Með því að þiggja sérfræðiaðstoð og lesa um öll einkenni áfallastreituröskunar er mun auðveldara að átta sig á einkennunum. Algengt er að fólk sé búið að stimpla sig eða aðra með greiningar eins og ADHD eða aðrar taugaraskanir þegar í raun er um áfallastreituröskun að ræða.

Aukið ofbeldi í samfélaginu á tímum Covid er ekki síður alvarlegra málefni en sjálfur faraldurinn og hefur eyðileggjandi áhrif inn í alla kima þess. Eitt af brýnustu verkefnunum er að bjóða þolendum viðunandi úrræði burtséð frá efnahag. Opnun þjónustumiðstöðvarinnar Bjarkarhlíðar árið 2017 var því afar mikilvægt skref en þar er fullorðnum þolendum ofbeldis af öllum kynjum gefinn kostur á viðtölum og ráðgjöf hjá félagsráðgjöfum, lögreglu og lögfræðingum þeim að kostnaðarlausu og á þeirra forsendum. Ljóst er þó að betur má ef duga skal ef við ætlum virkilega að sporna við ofbeldi í samfélaginu og mæta þörfum þolenda til fulls. Aukin meðvitund og samfélagsleg ábyrgð er fyrsta skrefið því ofbeldi ætti aldrei að líða og kemur okkur öllum við.

Kristjana Björg Sveinsdóttir


Hjálplegir hlekkir: www.bjarkarhlid.is – afallasaga.is

Ljósmynd: Gabriel Benois on Unsplash

Velferð fyrir alla

Velferð fyrir alla

Fátækt á Íslandi snertir stærri hóp en við viljum trúa. Það er þungbær staðreynd að fjöldi fólks á Íslandi býr í dag við mjög erfið efnahagsleg skilyrði og húsnæðisvandinn er þar einn stærsti áhrifavaldurinn. Matarkostnaður hér á landi er auk þess allt of hár miðað...

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég sé þolandi ofbeldis

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég sé þolandi ofbeldis

Það að ég sé þolandi ofbeldis gerir mig ekki að ævilöngu fórnarlambi, veiklynda, minnimáttar, eða ónýta á einhvern hátt. Sú fullyrðing sem sumir nota um að nauðgun sé sálarmorð á ALDREI rétt á sér. Þvert á móti er hægt að verða fullkomlega heil manneskja að nýju. Ég...

Tilgangurinn

Tilgangurinn

Hvað gerir mig ánægða, hamingjusama? Er ég núna að gera það sem ég á að vera að gera við líf mitt? Er ég á þeim stað sem ég á að vera komin á? Ég gæti núna verið að gera eitthvað stórkostlegt en er einhvern veginn föst í þessu neti. Er ég að sóa bestu árunum mínum í...

Efnahagsleg heilsa

Efnahagsleg heilsa

Að njóta góðrar almennrar heilsu krefst þess ekki einungis að við hlúum að okkur á líkama og sál því þær fjárhagsaðstæður sem við lifum við spila þar veigamikið hlutverk. Það þarf ekkert að ræða nauðsyn þess að eiga efni á fullkominni heilbrigðisþjónustu eða lyfjum...

Hámarksheilsa fyrir alla

Hámarksheilsa fyrir alla

Það er áhugavert hvað skýtur upp kollinum þegar við veltum fyrir okkur orðinu „hámarksheilsa“. Sumir gætu séð fyrir sér myndir af vel skornu fitnessfólki, þekktum útivistarstjörnum eða landsliðsfólki í hópíþróttum meðan aðrir hugsa kannski um útlærða reiki- eða...

Hvers virði er orðsporið?

Hvers virði er orðsporið?

Orðið baktal hefur oft verið mér hugleikið en aldrei eins mikið og á undanförnum mánuðum þar sem ég hef eytt töluverðum tíma í vangaveltur um þetta krabbamein í mannlegum samskiptum. Ástæðan var aðallega sú að allt í einu fannst mér þessi meinsemd svo áberandi í...