Veganúar dró dilk á eftir sér

25.02.2020 | Næring

Í haust átti sér stað ákveðin hugarfarsbreyting sem hefur verið að fæðast innra með mér í langan tíma, en ég var einfaldlega ekki tilbúin til þess að horfast í augu við hana fyrr. Viðhorfsbyltingin eins og ég kýs að kalla hana var tengd almennu mataræði en undanfarin misseri hef ég verið að hallast meira og meira að grænkerafæði. Á sama tíma átti sér stað ákveðin togstreita innra með mér sem var ekki síst af tilfinningalegum ástæðum. Ég ólst nefnilega upp við mataræði sem mikil virðing er borin fyrir og hélt bókstaflega lífi í þjóðinni á öldum áður. Þannig sleit ég barnskónum á íslensku sveitaheimili þar sem ávallt var boðið upp á kjarngóða næringu, allt var nýtt og engu sóað. Maturinn samanstóð af mjólk, íslensku lambakjöti, innmat, fiski og rúg. Viðhorf mitt til næringar var því nokkuð rótgróið og alls ekki einfalt að hagga. Hægt og bítandi fóru augu mín þó að opnast ekki síst vegna sífellt fleiri og háværari radda ungs fólks í kringum mig með Gretu Thunberg þar fremsta í flokki.

Ein manneskjan sem hefur sáð flestum fræjum þessa nútímamataræðis er uppkomin dóttir mín en hún tók einmitt upp á því að hætta að neyta kjöts fyrir nokkrum árum. Í fyrstu vildi ég ekki almennilega trúa því að hún væri orðinn grænkeri, varð jafnvel eilítið áhyggjufull hvort hún myndi örugglega nærast almennilega. En þegar ég gerði mér grein fyrir því að ekki væri aftur snúið fór ég að reyna að setja mig í hennar spor með því að prufa eina og eina viku á grænmetisfæði. Það var þá sem hlutirnar fóru að gerast. Ég fór að átta mig á því að þetta væri kannski ekki alveg jafn hræðilegt og mér fannst í byrjun og að hugsanlega væri hægt að lifa á svona mataræði án þess að líða sult, missa af gleðistundum í lífinu og veikjast af vannæringu.

Ég fann að fordómarnir, sem ég hélt ég væri alls ekki með, voru á hröðu undanhaldi en umhverfissamviskan hefur einnig verið að taka stökkbreytingum í ljósi staðreynda um loftslagsbreytinga vegna fjöldaframleiðslu dýra. Að sama skapi eru sjónarmið dýraverndunarsinna mjög skiljanleg þegar við verðum vitni að hryllilegri meðferð dýra við verksmiðjuframleiðslu í heiminum í dag.

Ég hóf að kynna mér efni á netinu um veganisma, las rannsóknir, horfði á heimildarmyndir og aflaði mér upplýsinga um þessa stefnu mataræðis. Margt virtist verulega umdeilt og annað vel viðurkennt í vísindaheiminum. Það sem kom mér mest á óvart var að sjá hversu margar rannsóknir benda til þess að grænkerafæði hafi verulega jákvæð áhrif á heilsuna. Það hefur til að mynda verið sýnt fram á að vegan mataræði hefur góð áhrif þegar kemur að sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, innkirtlasjúkdómum, háþrýstingi og ákveðnum tegundum krabbameins. Þá reyndist BMI tala fólks einnig lægri hjá þeim sem eru á vegan mataræði samanborið við fólk sem neytir dýraafurða og einnig er talið að veganmataræði minnki bólgur í líkamanum.

Miðað við rannsóknir virðist þó vera nóg að draga úr neyslu á dýraafurðum án þess að hætta alveg því sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif á heilsu fólks sé dregið úr neyslu kjöts sérstaklega í sambandi við hjartasjúkdóma og sykursýki 2. Eftir allt þetta grúsk var ég meira en tilbúin í að taka fullan þátt í Veganúar og ásetti mér að neyta engra dýraafurða af nokkru tagi allan mánuðinn.

Það kom mér skemmtilega á óvart hvað það var auðvelt að skipta alfarið yfir í grænkeramataræði. Úrvalið í flestum verslunum af grænkeramat var afbragðsgott og ég saknaði í raun einskis. Þá átti ég margar skemmtilegar stundir í eldhúsinu við að prufa alls kyns ný hráefni eins og mismunandi baunategundir, tófú, nýjar grænmetis- og ávaxtategundir og gervikjöt af ýmsu tagi.

Matvinnsluvélin var dregin fram og ljúffengar ídýfur, sósur, súpur og kássur lagaðar sem kitluðu bragðlaukana á alveg nýjan hátt. Mánuðurinn sem oftast er þungur, dimmur og langur breyttist í mun léttari og skemmtilegri janúar en vanalega. Ég fann fljótt mun á mér líkamlega, varð mun léttari á mér á grænmetisfæðinu og upplifði ákveðna hreinsun og minni bjúg.

Þegar febrúar rann upp gat ég því engan veginn hugsað mér að skipta beint aftur yfir í gamla mataræðið. Ég einfaldlega hef ekki lengur lyst á kjötinu og ekki einungis vegna loftslagsáhrifanna, dýraníðsins og slæmra áhrifa á heilsuna heldur eru bragðlaukarnir líka svolítið öðruvísi núna. Það er margt jákvætt við gamla góða íslenska mataræðið, sérstaklega með tilliti til meiri sjálfbærni og minni matarsóunar. Það er hins vegar staðreynd að kjötiðnaðurinn er ábyrgur fyrir yfir fjórðungi af allri losun gróðurhúsalofttegunda á sama tíma og óhollir lifnaðarhættir og offituvandinn er orsök flestra ótímabærra dauðsfalla í heiminum í dag.

Það hefur verið reiknað út að ef allir myndu skipta yfir í mataræði sem innihéldi minna af dýraafurðum myndi það hafa meiriháttar afleiðingar til hins betra fyrir heilsu heimsbyggðarinnar. Ég hef þó ekki ákveðið að verða 100% vegan þar sem ég kýs að sniðganga ekki endilega veitingar í veislum eða forðast algjörlega allar dýraafurðir þó ég muni framvegis neyta þeirra í mjög litlum mæli. Flexitarian mataræði er því núna uppi á teningnum hjá mér til lengri tíma litið. Þannig næ ég að að minnka kolefnissporið, bæta heilsuna og taka þátt í félagslegum athöfnum og veislum án of mikilla takmarkana.

Kristjana Björg Sveinsdóttir

Um ofbeldi og áfallabyrði

Um ofbeldi og áfallabyrði

Í íslenskum fréttum hefur á undanförnum mánuðum mikið verið rætt um aukningu á heimilisofbeldi hér á landi. Sérfræðingar hafa stigið fram og lýst yfir miklum áhyggjum af þróuninni. Það er ljóst að nú er ennþá brýnni þörf á því að bregðast við með auknum forvörnum og...

Frelsi til að velja

Frelsi til að velja

Leit mín að betri líðan og bættri heilsu hefur leitt mig inn á ótrúlegustu slóðir í gegnum tíðina og stundum alla leið út fyrir landsteinana þar sem aðgengi að ýmsum náttúrulegum efnum á Íslandi er frekar takmarkað. Þannig hef ég reynt allar mögulegar leiðir og...

Að sleppa takinu

Að sleppa takinu

Við heyrum stundum sagt að besta leiðin til að bregðast við ýmsu sem aflaga fer í lífinu sé að „sleppa takinu“ eða í fleirtölu að sleppa tökunum. Persónulega finnst mér best að nota „að sleppa takinu“ því það er eitthvað sem ég tengi við.  Að sleppa takinu hljómar í...

Sjálfsímynd ungs manns

Sjálfsímynd ungs manns

Pistill vikunnar kemur frá Ólafi Andra Gunnarssyni, 24 ára háskólanema sem býr í Borgarfirði. Hann hefur varið mestum tíma sínum í nám á undanförnum árum en eftir að hann lauk námi á náttúrufræðibraut við Menntaskólann á Laugarvatni hóf hann meistaranám í lögfræði við...

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Að vera sérfræðingur í eigin heilsu

Sölvi Tryggvason gaf nýverið út bókina “Á eigin Skinni” sem er afrakstur áratugar vegferðar hans um allt sem snýr að heilsu. Eftir að hafa sjálfur misst heilsuna neyddist Sölvi til að gerast sérfræðingur í heilsu og hefur á undanförnum árum lært af framúrskarandi...

Sjálfsvirðing

Sjálfsvirðing

Hvað er sjálfsvirðing? Í hverju felst hún? Á hverju byggist hún? Hvaða máli skiptir að hafa sjálfsvirðingu? Er sjálfsvirðing það sama og sjálfsmynd? Um hvað erum við að tala þegar við notum orðið sjálfsvirðing? Jú, ætli við vitum ekki flest hvað sjálfsvirðing er, eða...

Halló gerandi!

Halló gerandi!

 Þú veist kannski ekki af því að þú ert að beita ofbeldi. Varst jafnvel sjálfur beittur ofbeldi. Kannski ertu orðinn svo samdauna því að níðast á öðrum að þú þekkir einfaldlega ekkert annað. Kannski varðstu fyrir heilaskaða eða þjáist af persónuleikatruflun og getur...

Tinder fyrir lofaða

Tinder fyrir lofaða

Pistlahöfundur vikunnar er engin önnur en Ragnheiður Haralds- og Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur og kynlífsráðgjafi. Fyrir 20 árum byrjaði Ragga að fjalla um kynlíf í fjölmiðlum og fékk mikla athygli fyrir  sína fræðandi, skemmtilegu og hispurslausu pistla. Þessi...

Að tapa ekki gleðinni

Að tapa ekki gleðinni

Taktu lífinu ekki of alvarlega, finndu húmorinn í sjálfum þér, aðstæðum og öðru fólki. Reyndu að fjölga samverustundum með vinum og fjölskyldu. Mundu að tíminn með þeim er takmarkaður, dýrmætur og knappur í öllu stóra samhenginu. Vertu heiðarlegur við sjálfan þig og...