Veganúar dró dilk á eftir sér

25.02.2020 | Næring

Í haust átti sér stað ákveðin hugarfarsbreyting sem hefur verið að fæðast innra með mér í langan tíma, en ég var einfaldlega ekki tilbúin til þess að horfast í augu við hana fyrr. Viðhorfsbyltingin eins og ég kýs að kalla hana var tengd almennu mataræði en undanfarin misseri hef ég verið að hallast meira og meira að grænkerafæði. Á sama tíma átti sér stað ákveðin togstreita innra með mér sem var ekki síst af tilfinningalegum ástæðum. Ég ólst nefnilega upp við mataræði sem mikil virðing er borin fyrir og hélt bókstaflega lífi í þjóðinni á öldum áður. Þannig sleit ég barnskónum á íslensku sveitaheimili þar sem ávallt var boðið upp á kjarngóða næringu, allt var nýtt og engu sóað. Maturinn samanstóð af mjólk, íslensku lambakjöti, innmat, fiski og rúg. Viðhorf mitt til næringar var því nokkuð rótgróið og alls ekki einfalt að hagga. Hægt og bítandi fóru augu mín þó að opnast ekki síst vegna sífellt fleiri og háværari radda ungs fólks í kringum mig með Gretu Thunberg þar fremsta í flokki.

Ein manneskjan sem hefur sáð flestum fræjum þessa nútímamataræðis er uppkomin dóttir mín en hún tók einmitt upp á því að hætta að neyta kjöts fyrir nokkrum árum. Í fyrstu vildi ég ekki almennilega trúa því að hún væri orðinn grænkeri, varð jafnvel eilítið áhyggjufull hvort hún myndi örugglega nærast almennilega. En þegar ég gerði mér grein fyrir því að ekki væri aftur snúið fór ég að reyna að setja mig í hennar spor með því að prufa eina og eina viku á grænmetisfæði. Það var þá sem hlutirnar fóru að gerast. Ég fór að átta mig á því að þetta væri kannski ekki alveg jafn hræðilegt og mér fannst í byrjun og að hugsanlega væri hægt að lifa á svona mataræði án þess að líða sult, missa af gleðistundum í lífinu og veikjast af vannæringu.

Ég fann að fordómarnir, sem ég hélt ég væri alls ekki með, voru á hröðu undanhaldi en umhverfissamviskan hefur einnig verið að taka stökkbreytingum í ljósi staðreynda um loftslagsbreytinga vegna fjöldaframleiðslu dýra. Að sama skapi eru sjónarmið dýraverndunarsinna mjög skiljanleg þegar við verðum vitni að hryllilegri meðferð dýra við verksmiðjuframleiðslu í heiminum í dag.

Ég hóf að kynna mér efni á netinu um veganisma, las rannsóknir, horfði á heimildarmyndir og aflaði mér upplýsinga um þessa stefnu mataræðis. Margt virtist verulega umdeilt og annað vel viðurkennt í vísindaheiminum. Það sem kom mér mest á óvart var að sjá hversu margar rannsóknir benda til þess að grænkerafæði hafi verulega jákvæð áhrif á heilsuna. Það hefur til að mynda verið sýnt fram á að vegan mataræði hefur góð áhrif þegar kemur að sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum, innkirtlasjúkdómum, háþrýstingi og ákveðnum tegundum krabbameins. Þá reyndist BMI tala fólks einnig lægri hjá þeim sem eru á vegan mataræði samanborið við fólk sem neytir dýraafurða og einnig er talið að veganmataræði minnki bólgur í líkamanum.

Miðað við rannsóknir virðist þó vera nóg að draga úr neyslu á dýraafurðum án þess að hætta alveg því sýnt hefur verið fram á jákvæð áhrif á heilsu fólks sé dregið úr neyslu kjöts sérstaklega í sambandi við hjartasjúkdóma og sykursýki 2. Eftir allt þetta grúsk var ég meira en tilbúin í að taka fullan þátt í Veganúar og ásetti mér að neyta engra dýraafurða af nokkru tagi allan mánuðinn.

Það kom mér skemmtilega á óvart hvað það var auðvelt að skipta alfarið yfir í grænkeramataræði. Úrvalið í flestum verslunum af grænkeramat var afbragðsgott og ég saknaði í raun einskis. Þá átti ég margar skemmtilegar stundir í eldhúsinu við að prufa alls kyns ný hráefni eins og mismunandi baunategundir, tófú, nýjar grænmetis- og ávaxtategundir og gervikjöt af ýmsu tagi.

Matvinnsluvélin var dregin fram og ljúffengar ídýfur, sósur, súpur og kássur lagaðar sem kitluðu bragðlaukana á alveg nýjan hátt. Mánuðurinn sem oftast er þungur, dimmur og langur breyttist í mun léttari og skemmtilegri janúar en vanalega. Ég fann fljótt mun á mér líkamlega, varð mun léttari á mér á grænmetisfæðinu og upplifði ákveðna hreinsun og minni bjúg.

Þegar febrúar rann upp gat ég því engan veginn hugsað mér að skipta beint aftur yfir í gamla mataræðið. Ég einfaldlega hef ekki lengur lyst á kjötinu og ekki einungis vegna loftslagsáhrifanna, dýraníðsins og slæmra áhrifa á heilsuna heldur eru bragðlaukarnir líka svolítið öðruvísi núna. Það er margt jákvætt við gamla góða íslenska mataræðið, sérstaklega með tilliti til meiri sjálfbærni og minni matarsóunar. Það er hins vegar staðreynd að kjötiðnaðurinn er ábyrgur fyrir yfir fjórðungi af allri losun gróðurhúsalofttegunda á sama tíma og óhollir lifnaðarhættir og offituvandinn er orsök flestra ótímabærra dauðsfalla í heiminum í dag.

Það hefur verið reiknað út að ef allir myndu skipta yfir í mataræði sem innihéldi minna af dýraafurðum myndi það hafa meiriháttar afleiðingar til hins betra fyrir heilsu heimsbyggðarinnar. Ég hef þó ekki ákveðið að verða 100% vegan þar sem ég kýs að sniðganga ekki endilega veitingar í veislum eða forðast algjörlega allar dýraafurðir þó ég muni framvegis neyta þeirra í mjög litlum mæli. Flexitarian mataræði er því núna uppi á teningnum hjá mér til lengri tíma litið. Þannig næ ég að að minnka kolefnissporið, bæta heilsuna og taka þátt í félagslegum athöfnum og veislum án of mikilla takmarkana.

Kristjana Björg Sveinsdóttir

Mens sana in corpore sano

Mens sana in corpore sano

Ég hef alið með mér þann draum í mörg ár að verða andlega heilbrigður. Hvað merkir það eiginlega? Hvað er andlegt heilbrigði? Við vitum jú flest hvað það þýðir að vera líkamlega heilbrigður. Ég fékk heilbrigðan og hraustan líkama í vöggugjöf og hef alla tíð verið...

Velferð fyrir alla

Velferð fyrir alla

Fátækt á Íslandi snertir stærri hóp en við viljum trúa. Það er þungbær staðreynd að fjöldi fólks á Íslandi býr í dag við mjög erfið efnahagsleg skilyrði og húsnæðisvandinn er þar einn stærsti áhrifavaldurinn. Matarkostnaður hér á landi er auk þess allt of hár miðað...

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég sé þolandi ofbeldis

Ég er ekki fórnarlamb þótt ég sé þolandi ofbeldis

Það að ég sé þolandi ofbeldis gerir mig ekki að ævilöngu fórnarlambi, veiklynda, minnimáttar, eða ónýta á einhvern hátt. Sú fullyrðing sem sumir nota um að nauðgun sé sálarmorð á ALDREI rétt á sér. Þvert á móti er hægt að verða fullkomlega heil manneskja að nýju. Ég...

Tilgangurinn

Tilgangurinn

Hvað gerir mig ánægða, hamingjusama? Er ég núna að gera það sem ég á að vera að gera við líf mitt? Er ég á þeim stað sem ég á að vera komin á? Ég gæti núna verið að gera eitthvað stórkostlegt en er einhvern veginn föst í þessu neti. Er ég að sóa bestu árunum mínum í...

Efnahagsleg heilsa

Efnahagsleg heilsa

Að njóta góðrar almennrar heilsu krefst þess ekki einungis að við hlúum að okkur á líkama og sál því þær fjárhagsaðstæður sem við lifum við spila þar veigamikið hlutverk. Það þarf ekkert að ræða nauðsyn þess að eiga efni á fullkominni heilbrigðisþjónustu eða lyfjum...

Hámarksheilsa fyrir alla

Hámarksheilsa fyrir alla

Það er áhugavert hvað skýtur upp kollinum þegar við veltum fyrir okkur orðinu „hámarksheilsa“. Sumir gætu séð fyrir sér myndir af vel skornu fitnessfólki, þekktum útivistarstjörnum eða landsliðsfólki í hópíþróttum meðan aðrir hugsa kannski um útlærða reiki- eða...

Hvers virði er orðsporið?

Hvers virði er orðsporið?

Orðið baktal hefur oft verið mér hugleikið en aldrei eins mikið og á undanförnum mánuðum þar sem ég hef eytt töluverðum tíma í vangaveltur um þetta krabbamein í mannlegum samskiptum. Ástæðan var aðallega sú að allt í einu fannst mér þessi meinsemd svo áberandi í...